Álíka dýrt að borga undir tösku og ungabarn

Verðlagning á farmiðum fyrir yngstu farþegana er mismunandi eftir flugfélögum. Flest rukka tíund af fullorðinsfarinu á meðan önnur eru með fasta krónutölu.

Börn sem eru yngri en tveggja ára eiga ekki rétt á sérsæti um borð í flugvélum og þurfa því að sitja í fangi samferðamanna sinna. Það verður engu að síður að kaupa farmiða fyrir ungabörnin og það eru tvær ólíkar leiðir sem flugfélögin fara í verðlagninu á farmiðum fyrir þau yngstu. Annað hvort rukka þau fast gjald eða tíu prósent af almennu fargjaldi að frádregnum sköttum og gjöldum.

Samkvæmt athugun Túrista þá fara tólf af þeim sautján félögum, sem héðan fljúga í sumar, seinni leiðina. Lággjaldaflugfélögin eru hins vegar oftar með fast verð á ungabarnamiðum.

Lægst ef sá fullorðni kaupir ódýrasta miðann

Hjá Wow Air og Easy Jet er gjaldið 4000 krónur (22 pund hjá Easy Jet) fyrir hvern fluglegg. Þeir sem ná í ódýrustu fullorðinsmiðana hjá Icelandair, Norwegian eða SAS greiða 500 til 700 krónur fyrir farþega sem eru yngri en tveggja ára, hvora leið. Ef keyptur er miði sem kostar á bilinu 70 til 100 þúsund krónur þá er fargjaldið fyrir ungbarn sambærilegt við það sem lággjaldaflugfélögin rukka.

Ofantalin fimm flugfélög eru þau einu sem bjóða uppá áætlunarflug frá Keflavík allt árið um kring.

Töskurnar stundum innifaldar

Börnum fylgir oft talsverður farangur og hjá þeim flugfélögum sem rukka tíund fyrir börnin fylgir ein innrituð taska með í kaupunum. Sjaldnast er boðið upp á hressingu fyrir þennan hóp á meðan eldri börn fá oft mat og drykk. Hjá lággjaldaflugfélögunum borga allir fyrir að innrita farangur og þannig vill til að töskugjaldið er furðu nálægt því að vera jafn hátt og ungbarnafarmiði kostar. Þannig munar um 200 krónum á þessum tveimur gjöldum hjá Easy Jet og 550 krónum hjá Wow Air.

ÞETTA BÆTIST VIÐ FARGJALDIÐ

BÍLALEIGA: BÓKA NÚNA EN BORGA SÍÐAR