Út um helgina fyrir 15 til 28 þúsund krónur

Ódýrar ferðir fyrir þá sem gætu hugsað sér að verja helginni í Englandi, Noregi, Skotlandi eða Sviss. Einnig má bóka tilboð á ferðum til höfuðborga Ítalíu, Portúgals og Slóveníu

Fimmtudagurinn er frídagur og þeir sem geta fengið sig lausa úr vinnu á föstudag geta þar af leiðandi farið í fimm daga frí í vikunni. Þá gefst gott færi á að fara út fyrir landsteinana og þó fyrirvarinn sé stuttur er ennþá hægt að finna flugmiða til útlanda á verði sem oftast eru kennd við tilboð. Það eru lággjaldaflugfélögin Easy Jet og Norwegian sem bjóða best og eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan þá má fljúga til Oslóar, Bristol og Bergen fyrir minna en 20 þúsund en farið til Edinborgar, Manchester og Basel er dýrara.

Vegna yfirvofandi verkfalls starfsmanna Isavia þá gæti allt flug til og frá landinu stöðvast á miðvikudaginn. Sú staðreynd dregur sennilega úr ferðagleðinni en samkvæmt heimasíðu Samgöngustofu þá fæst flugmiði endurgreiddur ef flugi seinkar um meira en fimm tíma eða er aflýst. Fyrirframgreidd gisting fæst þó ólíklega tilbaka. Það gæti því borgað sig að ganga fyrst frá gistingunni þegar vinnudeilan leysist eða bóka hótelherbergi sem hægt er að afbóka endurgjaldslaust.

6 ódýr fargjöld í vikunni:

Osló með Norwegian, 29.apríl til 6. maí: 14.694 kr.

Bergen með Norwegian, 2. til 5. maí: 17.512 kr.

Bristol með Easy Jet, 1. til 4. maí: 18.438 kr.

Manchester með Easy Jet, 1. til 4.maí: 20.823 kr.

Basel með Easy Jet, 30.apríl til 3. maí: 25.255 kr.

Edinborg með Easy Jet, 1. til 5. maí: 27.935 kr.

Smelltu hér til að gera verðsamanburð á gistingu í borgunum sex.

Fleiri borgarferðir á sérkjörum

Vorin eru tími borgarferða og ferðaskrifstofurnar bjóða þá ágætis úrval af ferðum til borga sem alla jafna er ekki flogið beint til. Í dag er t.d. hægt að fá tvo flugmiða á verði eins til Ljubljana í Slóveníu með Heimsferðum. Verð á mann er 34.950 krónur. Vita býður flug til Lissabon og Rómar á 49.900 og báðar ferðaskrifstofur eru einnig með tilboð á pakkaferðum.

NÝJAR GREINAR: Einskonar Airwaves í GautaborgHverfin í Vancouver
BÍLALEIGUBÍLAR: Gerðu verðsamanburð á bílaleigubílum
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN