6 af hverjum 10 ferðum töfðust þrátt fyrir lögbann

Þrátt fyrir lögbann á verkfallsaðgerðir flugmanna Icelandair þá seinkaði meirihluta brottfara félagsins þá daga sem lögbannið gilti og þar til að nýr samningur var undirritaður.

Þannig níunda maí lögðu flugmenn Icelandair niður vinnu í tólf tíma og var boðað til samskonar aðgerða síðar í mánuðinum. Alþingi setti hins vegar lögbann á verkfallsaðgerðirnar þann fimmtánda þessa mánaðar og því kom ekki til annarrar vinnustöðvunar daginn eftir. Í framhaldinu var haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, talsmanni Icelandair, á Vísi að hann byggist við því að flug yrði nú með venjulegum hætti. Formaður samninganefndanefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) benti hins vegar á að þrátt fyrir lögbannið væri ekki hægt að neyða flugmenn til að vinna yfirvinnu. Áður hafði Mbl.is það eftir formanni FÍA, Hafsteini Pálssyni, að „…flugfélagið væri ekki með nægjanlegan mannskap til að halda uppi eðlilegri áætlun án þess að flugmenn vinni yfirvinnu.“

Það kom svo á daginn að þrátt fyrir lögbann þurti Icelandair að aflýsa um þrjátíu brottförum frá Keflavík og seinka öðrum vegna manneklu í áhöfn. En auk flugmanna fóru flugfreyjur félagsins í yfirvinnubann síðastliðinn sunnudag.

Langar tafir

Samkvæmt talningu Túrista þá töfðust 276 af 462 brottförum Icelandair frá Keflavík þá sex sólarhringa sem liðu frá því að lögbann var sett á aðgerðir flugmanna og þar til að þeir skrifuðu undir samning í fyrradag. Það þýðir að aðeins fjörtíu prósent ferða fóru á réttum tíma dagana 16. til 21.maí og var meðaltöfin 25 mínútur. Í gærmorgun voru einnig töluverðar tafir á flugi félagsins en seinnipartinn í gær og í dag hafa nær allar vélar á leið frá Keflavík farið í loftið samkvæmt áætlun.

NÝJAR GREINAR: ÓDÝRT TENGIFLUG TIL S-EVRÓPU Í SUMARBROT AF ÞVÍ BESTA Á JÓTLANDI
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu