Áherslubreytingar hjá WOW air í vetur

Forsvarsmenn WOW air ætla að lengja ferðatímabilið til Spánar fram í byrjun vetrar og fjölga ferðunum til Parísar á kostnað umferðarinnar til Kaupmannahafnar og London.

Það var boðið upp á allt að fjörtíu flug í viku frá Keflavík til höfuðborgar Bretlands í vetur. Lét nærri að fjórða hver vél sem tók á loft í Keflavík tæki stefnuna á flugvellina í nágrenni við London. Icelandair stóð fyrir helmingi ferðanna, WOW air bauð upp á þrettán flug í viku og easy Jet flaug daglega.

Breska félagið fækkaði svo ferðunum í vor og sumar en mun aftur bjóða upp á sjö flug í viku eftir áramót. WOW air mun hins vegar fækka sínum ferðum til Gatwick úr þrettán í viku niður í tíu. Icelandair heldur sínu striki og flýgur tvisvar á dag til Heathrow og fimm til sex ferðir í viku til Gatwick.

Sjaldnar til Kaupmannahafnar en oftar til Parísar

Síðustu ár hefur aðeins verið samkeppni um farþega á leið til höfuðborgar Frakklands á sumrin en á því varð breyting í vetur þegar WOW air flaug þangað tvisvar í viku. Félagið hyggst halda vetrarfluginu til Parísar áfram og fjölga ferðunum um eina.

Á sama tíma dregur WOW air úr framboði sínu á flugi til Kaupmannahafnar. Í stað tíu ferða í viku verður aðeins boðið upp á morgunflug alla daga vikunnar. Líkt og Túristi greindi frá nýverið hefur Icelandair aukið markaðshlutdeild sína í flugi til höfuðborgar Danmerkur umtalsvert síðustu ár. Útlit er fyrir að svo verði áfram miðað við þessar breytingar á áætlun WOW air. Þó ber að hafa í huga að forsvarsmenn norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian hafa íhugað að hefja flug milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar.

Í ár mun WOW air fljúga til Barcelona fram í lok október og til Alicante til enda nóvember. Hingað til hefur áætlunarflug til meginlands Spánar lagst af snemma á haustin. Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, verður félagið áfram með þrjár vélar á sínum snærum yfir vetrarmánuðina.

 

TILBOÐ Á GISTINGU Í BERLÍN OG KAUPMANNAHÖFN

NÝTT: FRÖNSK FJÖLL OG SVISSNESKAR SVEITIR
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM