Verðið hríðlækkar á bílaleigum Spánar

Það borgar sig ekki alltaf að bóka bílaleigubíl með löngum fyrirvara. Sá sem pantar bíl í dag fyrir ferðalag um Spán í júní borgar um helmingi minna en sá sem bókaði bílinn í febrúar.

Verð á bílaleigum geta breyst álíka oft og verð á flugmiðum. Flugfélögin lækka hins vegar sjaldnast verðin rétt fyrir brottför en það er hins vegar raunin hjá bílaleigum Spánar um þessar mundir. Í febrúar og í apríl kostaði um 35 þúsund krónur að leigja bíl í seinni hluta júnímánaðar í Alicante en ef bíllinn er bókaður í dag er verðið um 20 þúsund krónur samkvæmt verðkönnunum Túrista.

Í Barcelona hefur verðið lækkað um meira en helming á sama tíma eða úr tæpum fimmtíu þúsund krónum í nærri 24 þúsund. Leigan er mun hærri þegar líður á sumarið en þá hafa verðin einnig lækkað eins og sést á línuritunum hér fyrir neðan.

Eins og áður eru fundin verð á bílum í flokknum „Compact“ og notast er við leitarvél Rentalcars.com sem knýr áfram bílaleiguvef Túrista. Kannanir okkar hafa sýnt að þar er oft að finna hagstæðasta verðið.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM