Brot af því besta á Jótlandi

Eina fastaland Dana liggur vel við höggi á sumrin þegar boðið er upp á nokkrar ferðir í viku héðan til flugvallarins við Lególand.

Í átta af hverjum tíu tilvikum þá velja íslenskir ferðamenn í Danmörku að verja nóttinni á hóteli í Kaupmannahöfn. Á sumrin dreifum við okkur þó betur um landið og sérstaklega þegar áætlunarflug hefst til Billund á vorin. Á Jótlandi er fjöldi staða sem gera tilkall til þess að vera sá besti eða mesti í sínum flokki, alla vega í dönskum samanburði. Hér eru nokkrir af þessum hápunktum Jótlands.

Fallegasti bærinn

Á blómatíma seglskipanna byggðu skipstjórarnir sér reisuleg múrsteinshús með háum stráþökum í bænum Sønderho á eyjunni Fanø. Rúmlega sjötíu þeirra standa ennþá í dag og þorpsmyndin er því mjög heilleg í þessu litla kauptúni sem fékk flest atkvæði í valinu á fallegasta smábænum í Danmörku fyrir ekki svo löngu síðan.

 

 

Vinsæl hjólaleið

Löngu fyrir tíma járnbrauta og bíla lá ein aðal umferðaræð Danmerkur eftir miðju Jótlandi. Þessi 240 kílómetra vegur kallast Hærvejen og nær frá Viborg og suður til þýsku borgarinnar Padburg. Leiðin er vinsæl meðal hjólreiðafólks, sögu sinnar vegna og líka vegna náttúrufegurðarinnar.

Þeir sem vilja heldur hjóla við sjávarsíðuna geta farið bút af hjólaleið númer 1 (National Cykelrute 1). Sú liggur eftir vesturströnd Jótlands frá Rudbøl til Skagen og er um 530 kílómetra löng.

Hraðskreiðir rússibanar

Það kann að skjóta skökku við að í litlum bæ á austurhluta Jótlands sé að finna rússíbana sem kjörinn hefur verið sá sjötti besti í heimi. Tækið, sem gengur undir nafninu Piraten, kostaði rúman milljarð íslenskra króna og er það stærsta og hraðskreiðasta sinnar tegundar í Danmörku. Þessi stóra fjárfesting kom forsvarsmönnum garðsins á bragðið og þar er líka að finna stærsta vatnsrússibana N-Evrópu og Juvelen sem er lengsti rússibani Danmerkur.

Besti veitingastaður Norðurlanda

Þó Henne Kirkeby Kro hafi ekki ennþá hlotið stjörnu í ferðabókum Michelin þá var þessi huggulega sveitakrá kjörinn besti veitingastaður Norðurlanda fyrir tveimur árum síðan. Eftir að hinn breski Paul Cunningham tók við eldhúsi staðarins hafa vinsældir kráarinnar aukist enn frekar. Á kvöldin stendur valið á milli matseðla sem kosta tæpar tuttugu þúsund á mann en í hádeginu eru verðin viðráðanlegri og réttirnir á þrjú til fimm þúsund krónur.

Næst besta ströndin

Árlega stendur dagblaðið Berlingske fyrir kosningu á bestu baðströnd Danmerkur. Síðustu ár hefur Marielyst á Falster sigrað með nokkrum yfirburðum nema í fyrra þegar Bisnap Strand, stutt frá Álaborg, fékk álíka mörg atkvæði. Bisnap Strand þykir mjög barnvæn baðströnd enda aðgrunnt og þau yngstu geta því buslað í sjávarmálinu.

 

Icelandair flýgur til Billund allt að fjórum sinnum í viku frá vori og fram til loka október og Primera Air býður upp á vikulegar ferðir yfir sumarið.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM