Eftirspurn eftir Íslandsflugi nær hámarki á veturna

Síðustu ár hefur ferðaþjónustan lagt áherslu á að lengja ferðamannatímabilið. Það virðist hafa tekist, að minnsta kosti þegar litið er til heimsókna breskra túrista. Talskona easy Jet segir veturinn háannatíma í ferðalögum til Íslands.

Fyrstu þrjá mánuði þessa árs komu hingað 60.489 breskir ferðamenn en yfir sumarmánuðina í fyrra voru þeim rúmlega helmingi færri eða 27.138 samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Vetrarferðir til Íslands eru því mun vinsælli meðal Breta en ferðalög hingað yfir sumarmánuðina. Þannig var það ekki fyrir nokkrum árum síðan, til dæmis komu hingað fleiri Bretar sumarið 2009 en á fyrsta ársfjórðungi þess árs. Árin eftir var dreifing álíka en eins og áður segir eru ferðir Breta hingað núna miklu tíðari yfir vetrarmánuðina.

Eins og sést á línuritinu hér fyrir neðan þá dreifast breskir ferðamenn mun jafnar yfir árið en aðrir erlendir ferðamenn sem koma aðallega hingað yfir sumarmánuðina. Þá fækka Bretar hins vegar ferðum sínum hingað.

Tvöfalt framboð

Eins og Túristi hefur áður greint frá þá hefur flug héðan til London tvöfaldast á tveimur árum og var boðið upp á fjörtíu ferðir í viku til London í febrúar og mars síðastliðnum. Auk þess er flogið beint til Bristol, Edinborgar, Glasgow og Manchester. Í sumar hefst einnig flug til Birmingham (smelltu til að sjá hverjir fljúga til þessara borga).

easy Jet fjölgar ferðum í vetur

Breska lággjaldaflugfélagið easy Jet hefur aukið umsvif sín hér á landi hratt og flýgur nú héðan til fjögurra breska borga og Basel í Sviss.

Í vetur bauð félagið upp á daglegar ferðir hingað frá Luton flugvelli í nágrenni við London. Ferðum félagsins fækkaði hins vegar í vor. Skýringuna á því segir Anna Knowles, talskona easy Jet, vera þá að veturinn er háannatími þegar kemur að ferðalögum til Íslands og því eru í boði fleiri ferðir á þeim tíma árs. Félagið mun því aftur fljúga hingað daglega frá Luton í vetur og bæta við ferðum frá Bristol og Edinborg.

Icelandair hefur einnig fjölgað vikulegum ferðum sínum til London úr fjórtán í allt að tuttugu síðustu tvö ár og flýgur einnig til Glasgow og Manchester. WOW air flaug til London þrettán ferðir í viku í vetur en ætlar að fækka þeim niður í tíu næsta vetur.

TILBOÐ Á GISTINGU Í BERLÍN OG KAUPMANNAHÖFN

NÝTT: FRÖNSK FJÖLL OG SVISSNESKAR SVEITIR
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM