Einn flugþjónn í verkfall

Fyrsta vinnustöðvunin í sögu norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian hófst á miðnætti. Aðgerðin mun þó engin áhrif hafa á flugáætlunina, alla vega til að byrja með.

Ekki tókst að ná lendingu í deilu Norwegian flugfélagsins við norskar og danskar áhafnir á samningafundi sem endaði í nótt. Fyrsta verkfallið í sögu félagsins hófst því á miðnætti þegar hinn 43 ára flugþjónn, René-Charles Gustavsen, lagði niður störf. Samkvæmt frétt Aftenposten er þetta fámennasta verkfallið í sögu Noregs.

Innan nokkurra daga er reiknað með að um tólf hundruð kollegar flugþjónsins í Danmörku og Noregi muni einnig fara í verkfall en vegna mismunandi reglna um vinnustöðvanir í löndunum tveimur er ekki hægt að samræma aðgerðir betur en þetta. Gustavsen situr í stjórn stéttarfélagsins og sagði hann í samtali við Aftenposten að það hafi verið eðlilegast að kjörinn fulltrúi starfsmanna riði á vaðið svo hægt væri að hefja aðgerðirnar. Flugþjónninn ætlar hins vegar ekki að standa verkfallsvakt næstu daga heldur reyna að finna lausn á deilunni.

Hóta að fella niður frímiða

Í dag eru danskar áhafnir Norwegian með samning við móðurfélagið í Noregi en yfirmenn Norwegian vilja færa samningana yfir á danskt dótturfélag. Það sætta starfsmennirnir sig ekki við og einnig blandast inn í deiluna ósætti með lífeyrisréttindi og önnur kjaramál. Á samningafundinum í nótt var reynt til þrautar að finna lausn samkvæmt norskum fjölmiðlum en sms skeyti frá forstjóra félagsins hleypti illu blóði í samninganefnd starfsmanna. Í skeytinu var tilkynnt að vegna deilunnar myndi Norwegian leggja niður starfsstöðvar sínar á öllum norskum flugvöllum nema í Osló, rétturinn á flugmiðum á starfsmannakjörum yrði felldur niður í þrjú ár og verktakafyrirtæki myndi taka yfir allar áhafnir Norwegian á Kaupmannahafnarflugvelli. Fulltrúi starfsmanna segir þessa hótun skammarlega.

Norwegian flýgur til Keflavíkur frá Osló og Bergen og farþegar þess hér á landi ættu að fylgjast með heimasíðu félagsins til að fá nánari upplýsingar um breytingar á ferðaáætlun næstu daga.

BÍLALEIGUBÍLAR: Gerðu verðsamanburð á bílaleigubílum
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN