Fleiri ferðast einir

Taka þarf frá fleiri einstaklingsherbergi í hópferðir ferðaskrifstofanna í dag en áður. Það er til skoðunar er að bjóða upp á sérferðir fyrir einstaklinga en óhagstæð verðlagning hótelanna stendur í veginum.

Það er algengt að þeir sem fara einir í pakkaferð borgi um fimmtungi meira en þeir sem deila herbergi með öðrum. Eftirspurn eftir eins manns herbergjum í ferðum á vegum íslensku ferðaskrifstofanna hefur samt sem áður aukist.

Margrét Helgadóttir, framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar, segir aukninguna sérstaklega vera í sérferðum sem farnar eru með fararstjórum. Hún segir að það hafi komið til tals að bjóða upp á sérstakar einstaklingsferðir. „Eini gallinn er að hótelgistingar eru dýrari á mann þegar farþegar eru einir í herbergi og það gerir ferðina stundum of dýra,“ segir Margrét.

Aðstoða við að finna herbergisfélaga

Hugrún Hannesdóttir, sölustjóri utanlandsdeildar Bændaferða, verður einnig vör við aukinn áhuga hjá þeim sem ferðast einir. Hún nefnir sem dæmi að áður hafi tvö til þrjú einstaklingsherbergi verið í boði í ferðum fyrir fimmtíu manna hópa. Í dag er hins vegar boðið upp á tvöfalt fleiri eins manns herbergi og það dugir oft ekki til. Hugrún segir að starfsfólk Bændaferða aðstoði reglulega ferðalanga við að finna herbergisfélaga af sama kyni og nýta konur sér þá þjónustu meira en karlar. „Það eru töluvert margar sem nýta sér þetta og finna sér jafnvel herbergisfélaga með þessum hætti í fleiri ferðir. Því hluti af því að ferðast er jú félagsskapurinn,“ bætir Hugrún við. Starfsfólk Úrvals-Útsýnar fær einnig beðnir frá fólki sem óskar eftir aðstoð við að finna ferðafélaga.

VINSÆLT: Svona borgar þú miklu minna fyrir bílaleigubíl
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu út um allan heim