Flokkast verkföll undir óviðráðanlegar aðstæður?

Réttur flugfarþega á skaðabótum fellur niður ef flugi er aflýst vegna vinnustöðvunar samkvæmt reglugerð. Málið er hins vegar ekki svo einfalt í öllum tilvikum.

Í apríl setti kjaradeila starfsmanna Keflavíkurflugvallar allt millilandaflug úr skorðum og nú eru það verkfallsaðgerðir flugmanna Icelandair sem gera flugfarþegum erfitt fyrir. Ferðaplön fjölmarga riðlast og samkvæmt fréttum þá eru margir flugfarþegar efins um rétt sinn.

Á heimasíðu Icelandair kemur fram að farþegar geti fengið miða sína endurgreidda eða breytt þeim ef flugið er fellt niður. Þar er hins vegar ekki minnst á skaðabætur en þegar flugferðum er aflýst með minna en tveggja vikna fyrirvara þá eiga farþegar almennt rétt á fébótum eins og Túristi greindi frá. Hins vegar segir í reglugerð um skaðabætur og réttindi flugfarþega að skyldur flugrekanda falla niður ef óviðráðanlegar aðstæður valda því að flugi er aflýst. Ótryggt stjórnmálaástand, slæm veðurskilyrði og verkföll teljast til þess háttar aðstæðna samkvæmt reglugerðinni. Þýskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum að flugmannaverkfall hjá Lufthansa væri dæmi um óviðráðanlegar aðstæður og farþegar áttu því ekki rétt á bótum.

Hins vegar segir á heimasíðu Samgöngustofu að verkföll flugrekanda teljist ekki til óviðráðanlegra aðstæðna og í Danmörku hafa reglur Evrópusambandins verið túlkaðar á sama hátt. Reglurnar eru því ekki skýrar og á vef sænsku neytendasamtakanna segir að meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvað séu óviðráðanlegar aðstæður.

Skaðabótaskyld daginn eftir

Á heimasíðu bresku neytendendasamtakanna Which? kemur fram að Evrópudómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í október árið 2012 að flugfélög eru ekki skaðabótaskyld daginn sem verkfall fer fram en verða hins vegar að greiða bætur daginn eftir. Er nefnt sem dæmi að ef verkfall á mánudegi verði til þess að ferðum er aflýst eigi farþegar sem verða fyrir barðinu ekki rétt á bótum, aðeins endurgreiðslu eða breyttum miða. Á þriðjudeginum eigi farþegar að fá bætur ef ferðum seinkar eða er aflýst. Jafnvel þó verkfallið daginn áður sé orsökin fyrir breyttum flugtímum. Í tilfelli Icelandair gæti hins vegar verið erfitt að segja hvenær verkfalli er lokið því yfirvinnubann flugmanna og flugfreyja er hugsanlega flokkað sem verkfallsaðgerð. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá árinu 1995 þá var litið á yfirvinnubann flugumferðastjóra sem sem ígildi verkfalls.

TILBOÐ Á GISTINGU Í BERLÍN OG KAUPMANNAHÖFN

NÝTT: FRÖNSK FJÖLL OG SVISSNESKAR SVEITIR
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM