Skyndileg samkeppni í flugi til Birmingham

Árið 2010 bauð Iceland Express upp á eina ferð í viku til Birmingham yfir sumarmánuðina. Brátt verða hins vegar tvö flugfélag á þessari flugleið allt árið um kring og ferðirnar fimm í viku.

Það sem af er ári hefur breskum ferðamönnum fjölgað um nærri helming hér á landi og vöxturinn á síðasta ári var sambærilegur. Rúmlega 137 þúsund Bretar komu hingað í fyrra en engin önnur þjóð heimsækir Ísland í sama mæli samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Líkt og Túristi sagði frá þá koma Bretar í auknum mæli hingað á veturna á meðan sumarferðir til Íslands njóta ennþá mestra vinsælda meðal annarra ferðamanna.

Flugsamgöngur milli Íslands og Bretlands hafa stóraukist síðustu ár og til að mynda er nú boðið upp á tvöfalt fleiri ferðir til London en fyrir tveimur árum síðan. Við þetta bætist við flug til Bristol, Edinborgar, Glasgow og Manchester og brátt hefst einnig flug til Birmingham, næst fjölmennstu borg Bretlands.

Gekk ekki hjá Iceland Express

Iceland Express spreytti sig á flugi til Birmingham sumarið 2010 með einni ferð í viku en flugið lagðist af um haustið. Í lok júní verður á ný boðið upp á ferðir til borgarinnar þegar breska lággjaldaflugfélagið Flybe hefur flug til Íslands í fyrsta skipti. Félagið tilkynnti um Íslandsflugið í byrjun apríl og mun bjóða upp á þrjár ferðir í viku. Upphaflega stóð til að starfrækja flugleiðina aðeins yfir sumarmánuðina en samkvæmt tilkynningu frá félaginu í síðustu viku var eftirspurnin það mikil að flogið verður allt árið um kring.

Fagnar samkeppninni

Í morgun tilkynntu forsvarsmenn Icelandair að félagið myndi einnig hefja flug til Birmingham og bjóða upp á tvær ferðir í viku. Jómfrúarferð Icelandair til borgarinnar verður farin í febrúar en flugið mun hafa verið í undirbúningi undanfarið ár samkvæmt því sem segir í tilkynningu félagsins. Aðspurður um þessa skyndilegu samkeppni á flugleiðinni segir Fred Kochak hjá Flybe, í svari til Túrista, að félagið fagni ávallt samkeppni því þannig gefist tækifæri til að sýna farþegunum fram á kosti Flybe í samanburði við samkeppnisaðilana.

ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM