Ódýrt tengiflug til S-Evrópu í sumar

Framboð á beinu flugi héðan til suðurhluta Evrópu er sáralítið en með því að flúga frá Keflavík með þremur evrópskum lággjaldaflugfélögum er hægt að komast þangað ódýrt og um leið tryggja sig fyrir tjóni ef seinkanir setja ferðaplanið úr skorðum.

Íslenskir túristar á leið til suður- og austurhluta Evrópu þurfa oftast að millilenda á leið sinni á áfangastað þar sem skortur er á beinu flugi héðan til þessara hluta álfunnar. Óhætt er að fullyrða að margir setji því ferðina saman á netinu og bóki þá flugin í sitthvoru lagi. En þá gæti farþeginn lent í klípu ef seinkun á fyrra fluginu verður þess valdandi að hann missir af framhaldsfluginu. Þá þarf ferðalangurinn sjálfur að kaupa nýjan miða til að komast á áfangastað.

Fyrir áhættufælna ferðalanga

Þeir sem vilja tryggja sig fyrir svona skakkaföllum kaupa farið af flugfélagi eða ferðaskrifstofu og verða þá bæði flugin að vera hluti af sama miðanum. Sá sem er með þannig miða er á ábyrgð söluaðilans ef flugi seinkar mikið eða er aflýst. Fæst lággjaldaflugfélög bjóða upp á þess háttar miða en það gera þó Vueling, German Wings, Airberlin og Norwegian svo lengi sem báðir leggir eru með viðkomandi félagi. Þannig getur farþegi í Keflavík flogið til Berlínar með Airberlin og skipt þar um vél og flogið áfram á suðrænar slóðir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af seinkunum. Flugfélagið ber nefnilega ábyrgð á að koma viðkomandi á áfangastað og skaffa gistingu og skaðabætur ef tímasetningar breytast óvænt.

Þeir sem eru á leið suður á bóginn ættu því að kíkja á heimsíður þessara flugfélaga og kanna hvort fargjöldin standist samanburð. Eins og sjá má á verðdæmunum hér fyrir neðan þá er hægt að fá flug á einum miða með þessum félögum á verði sem er sjaldan bjóðast á beinu flugi héðan til Spánar eða Ítalíu á sumrin. Hafa ber í huga að við fargjöldin bætast oft farangurs- og bókunargjöld.

Ítalía

Catania
13. til 26.júní: 45.814 kr. með Airberlin

Napólí:
11. til 24. júní: 42.432 kr. með Airberlin

Róm:
11. til 24. júní: 47.751 kr. Airberlin
19. til 29. september: 51.810 kr. Vueling

Frakkland

Nice:
20.júní til 3. júlí: 47.766 kr. með Airberlin

Toulouse:
10. til 26.júní: 46.890 kr. með Vueling
16. til 29.júní: 45.814 kr. með German Wings

Spánn

Cadiz:
10. til 26. júní: 53.655 kr. Vueling

Menorca:
10. til 26.júní: 50.734 kr. með Vueling

Palma á Mallorca:
27.júní til 13.júlí: 41.202 kr. German Wings

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM