Flugmenn gagnrýndir á þingi og af kollegum

Það stefnir í verkfall hjá flugmönnum Icelandair á morgun og 26 flug verða felld niður. Þriggja daga vinnustöðvun flugmanna Lufthansa hefur enn sem komið er litlu skilað nema gagnrýni á stéttina.

Flugmenn Lufthansa, umsvifamesta flugfélags Evrópu, lögðu niður störf í þrjá daga í byrjun apríl. Eru þeir ósáttir við fyrirhugaðar breytingar á lífeyrisréttindum og eins krefjast þeir hærri launa. Vinnustöðvunin er talin hafa kostað fyrirtækið um 70 milljónir evra (um 11 milljarða króna) en aflýsa þurfti um fjögur þúsund ferðum og koma farþegum fyrir hjá öðrum flugfélögum eða í lestir. Deilan er ennþá óleyst og haft er eftir fjármálastjóra Lufthansa í fyrradag að hún útiloki ekki frekar verkföll.

Samkvæmt frétt Reuters hefur Lufthansa boðið flugmönnunum 5,2 prósenta hækkun sem nær aftur til apríl 2012 og fram til loka næsta árs. Flugmennirnir eru sáttir við afturvirku hækkunina en krefjast 4,6 prósenta viðbótar fyrir næstu 12 mánuði. Eins leggjast þeir gegn hugmyndum um að takmarka rétt þeirra til eftirlauna.

Þingmenn og kollegar ósáttir

Meðallaun flugmanna hjá Lufthansa eru um 2,3 milljónir króna á mánuði (um 15.000 evrur) eða fjórföld þýsk meðallaun samkvæmt frétt Reuters. Sú staðreynd hefur meðal annars orðið til þess að aðgerðirnar hafa verið gagnrýndar af þýskum þingmönnum, fjölmiðlafólki og ekki síst öðrum starfsmönnum Lufthansa. Flokksfélagi Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sagði meðal annars að hann hefði litla samúð með vinnudeilum stéttar sem hefði álíka laun og kanslarinn sjálfur.

Í frétt Eyjunnar í dag kemur fram að flugstjórar Icelandair eru með tvisvar til þrisvar sinnum hærri laun en hinn almenni launamaður. Munurinn verður enn meiri ef dagpeningagreiðslur eru teknar með en þær geta numið um 200 til 300 þúsund krónum á mánuði samkvæmt Eyjunni.

Ekkert flug á vegum Icelandair á morgun

Fyrir stundu sendi Icelandair frá sér tilkynningu þess efnis að tuttugu og sex flug á vegum félagsins á morgun yrðu felld niður. Á heimasíðu Icelandair má fá nánari upplýsingar um hvaða ferðir er að ræða og hver réttindi farþega eru. Flugmenn félagsins hafa einnig boðað til tólf tíma vinnustöðvunar 16. og 20. maí. Þá verður tveggja daga verkfall 23. til 25. maí og aftur 30. maí til 3. júní.

Líkt og kom fram í frétt Túrista í gær þá stefnir í almennt verkfall hjá starfsmönnum lággjaldaflugfélagsins Norwegian innan nokkurra daga en samkvæmt breskri rannsókn eru flugmenn lággjaldaflugfélaga með lægri laun en starfsbræður hjá hefðbundnum félgum í átta af hverjum tíu tilfellum.