Dagstúrar upp frönsk fjöll og um svissneskar sveitir

Það er auðvelt að fara í gjörólíkar dagsferðir frá Genf en sumar þeirra krefjast ferðalags út fyrir landamærin.

Fyrrum heimili hertogans af Savoy við Genfarvatn er í dag einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Sviss. Mynd: Swiss Tourism
Á góðum degi blasir Mont Blanc við íbúum Genfar og eitt af breiðstrætum borgarinnar er nefnt eftir þessu hæsta tindi Alpanna. En Mont Blanc og öll önnur fjöll sem sjást frá Genf eru hinum megin við landamærin og tilheyra því Frakklandi. Það stoppar hins vegar ekki Genfarbúa eða gesti þeirra í að njóta þessara náttúrusvæði enda ekki langt að fara. Það tekur til að mynda aðeins klukkutíma að keyra frá Mont Blanc brúnni í Genf og upp til fjallaþorpsins Chamonix sem er við rætur tindsins. Frá Chamonix má svo ganga í átt að fjallinu eða taka fyrrum hæsta kláf í heimi upp í hinar 3500 metra háu hlíðar Aiguille du Midi. Þeir sem vilja ekki fara svona langt né hátt geta farið með hinum nýuppgerða kláf við Mont Salève upp í ellefu hundruð metra hæð. Við þetta franska bæjarfjall Genfar er líka hægt að stunda alls kyns útivist og liggja ófáir göngustígar á þessum slóðum fyrir þá sem vilja hreyfa sig smá.

Drekka allt sjálfir

Í Vínbúðunum grípa þeir í tómt sem vilja prófa svissneskt áfengi og það kemur kannski ekki á óvart því heimamenn segja vínið sitt of gott til að deila með öðrum. Þeir sem kynna sér þennan hluta svissnesks landbúnaðar ættu að gera sér ferð til bæjarins Satigny sem er einn helsti vínræktarbærinn í Sviss. Þangað tekur aðeins tíu mínútur að komast með lest frá Genf. Við Entre Arve et Rhône eru nokkrar vínekrur og veitingastaðir þar sem kokkarnir halda í hefðirnar og því hægt að kynnast matar- og vínmenningu heimamanna á einu bretti.

Ítalskt leynivopn

Hinn kaþólski hertogi í Savoy reyndi ítrekað að ná Genf úr höndum Kalvinista með hervaldi en án árangurs. Hann reisti meiri að segja ítalskan bæ rétt við borgarmúrana í von um að Genfarbúar myndu fjölmenna þangað. Það tókst ekki þá en í dag er varla hægt að komast yfir íbúð í gamla hluta ítalska bæjarins sem nefnist Carouge. Þangað tekur aðeins nokkrar mínútur að komast með sporvagni frá Genf. Það þarf hins vegar að fara um áttatíu kílómetra til að komast í kastala hertogans sjálfs. Sá stendur við hinn enda Genfarvatns og er í dag einn vinsælasti ferðamannastaðurinn í Sviss. Á leiðinni þangað má til dæmis stoppa í hinu myndræna þorpi Hermance og jafnvel baða sig í vatninu áður en ferðinni er haldið áfram.

Í lok maí fer Icelandair jómfrúarflug sitt til Genfar og hér má lesa meira tengt ferðalögum til Genfar.

NÝJAR GREINAR: Einskonar Airwaves í GautaborgHverfin í Vancouver
BÍLALEIGUBÍLAR: Gerðu verðsamanburð á bílaleigubílum
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN