Ísland vinsælt hjá sænskum ellilífeyrisþegum

Eldri borgarar í Svíþjóð verða á faraldsfæti í sumar samkvæmt einum stærsta ferðasala landsins. Reykjavík er einn þeirra áfangastaða sem hefur skotist upp topp tíu listann hjá þessum hópi.

Fjórði hver Svíi á aldrinum 65 til 79 ára er á leið í pakkaferð til útlanda á næstunni á meðan fimmti hver ætlar að ferðast á eigin vegum. Þetta kemur fram í rannsókn sem norræna ferðabókunarfyrirtækið Ticket hefur látið gera. Haft er eftir markaðsstjóra fyrirtækisins, í frétt Svenska Dagbladet, að sala á sumarferðum til þeirra elstu hafi aukist um þrettán prósent frá því í fyrra. Mesta aukningin er í bókunum í ferðir til Búdapest, Reykjavíkur, Algarve, Pula í Króatíu, Sardaníu og Sikileyjar.

Ticket er umsvifamesta ferðabókunarfyrirtæki Norðurlanda að því kemur fram á heimsíðu þess og átti hið íslenska Fons stóran hlut í fyrirtækinu á sínum tíma.

Ferðum okkar fækkar til Svíþjóðar

Það sem af er ári hefur heimsóknum Svía til Íslands fjölgað um 11,9 prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Hins vegar hefur dregið nokkuð úr ferðum íslenskra túrista til Svíþjóðar og á fyrsta fjórðungi ársins bókuðu Íslendingar sextán prósent færri gistingar á hótelum í Stokkhólmi en á sama tíma í fyrra. En um helmingur þeirra gistinátta sem Íslendingar panta í Svíþjóð eru á hótelum í Stokkhólmi. Þangað er flogið allt árið en á sumrin býður Icelandair einnig upp á áætlunarflug til Gautaborgar. Vegna nálægðar Kaupmannahafnarflugvallar við Malmö, næst fjölmennstu borg Svíþjóðar, er einnig auðvelt að fljúga þangað ef ferðinni er heitið til Skánar.

Hvað sem flugsamgöngunum líður þá virðast Íslendingar ekki eins spenntir fyrir Svíþjóð og Svíar eru fyrir Íslandi um þessar mundir.

ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM