Mun fleiri ferðast til útlanda

Í páskamánuðinum fjölgar utanlandsferðum og svo var einnig í ár. Á fyrsta þriðjungi ársins hefur íslenskum farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgað um sjö af hundraði.

Af þeim tæplega nítíu og fimm þúsund farþegum sem innrituðu sig í flug í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í apríl þá voru Íslendingar 35.417 talsins eða liðlega þriðjungur. Þetta eru nokkru fleiri Íslendingar en á sama tíma í fyrra og ástæðan er líklegast sú að brottförum íslenskra flugfarþega frá Keflavíkurflugvelli fjölgar alla jafna í páskamánuðinum. Á síðasta ári voru páskarnir í mars.

Meiri aukning en allt síðasta ár

Það sem af er ári hefur ferðum landans til útlanda fjölgað um sjö prósent og hafa 106.622 íslenskir farþegar flogið út samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Aukningin nemur um sjö þúsund manns sem er aðeins meiri fjölgun en varð allt síðasta ár í fjölda íslenskra flugfarþega á Keflavíkurflugvelli.

Ferðagleði Íslendinga hefur því verið mun meiri í byrjun árs en á sama tíma í fyrra því þá fækkaði ferðunum lítillega í samanburði við fyrstu fjóra mánuði ársins 2012. En á fyrsta þriðjungi þessa árs hefur þeim hins vegar fjölgað töluvert eins og fyrr segir.

TILBOÐ Á GISTINGU Í BERLÍN OG KAUPMANNAHÖFN
NÝTT: FRÖNSK FJÖLL OG SVISSNESKAR SVEITIR
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM