Gist á splunkunýju hóteli

Það er víðar en hér á landi sem hóteleigendur eru stórhuga og reisa nýja gististaði. Hér eru nokkrir nýir af nálinni í borgunum sem íslenskir túristar venja komur sínar til.

Það er ekki óalgengt að hægt sé að fá vænan afslátt á nýjum hótelum. Alla vega rétt á meðan starfsfólkið er að ná áttum í húsinu, iðnaðarmenn ljúka störfum og bókunardeildin lærir á markaðinn. Samkvæmt lauslegri athugun er hægt að gera ágætis kaup á gistinginu á þessum fjórum hótelum sem eiga það eitt sameiginlegt að þar hafa fáir eytt nóttinni.

Miss Clara – fimm stjörnur í Stokkhólmi

Lengi vel var starfræktur stúlknaskóli í virðulegri byggingu rétt við Hötorget í miðborg Stokkhólms. Kynjaskipting í sænskum skólum heyrir hins vegar sögunni til og húsnæðinu hefur verið breytt í lúxus hótel sem ber heitið Miss Clara. Herbergin eru flest með stórum gluggum og er mælst til þess að gestirnir gefi sér tíma til að setjast á púðana í gluggakistunni og horfa út breiðgötuna Sveavägen og kirkju Adolfs Friðriks. Í dag er Miss Clara ódýrasta fimm stjörnu hótelið í Stokkhólmi og kostar nóttin um þrjátíu þúsund krónur.

Sjá heimasíðu Miss Clara

Wake Up – ódýrt í miðborg Kaupmannahafnar

Rétt við aðallestarstöðina í Kaupmannahöfn stendur grátt háhýsi Wake up. Hótelinu var ætlað að svara kalli ferðamanna eftir ódýrri gistingu í höfuðborginni og það virðist hafa gengið eftir því í síðustu viku opnaði nýtt útibú Wake up við Borgergade, stuttan spöl frá Kóngsins nýjatorgi. Sem fyrr er fókusinn er á ódýra gistingu í hjarta borgarinnar. Billegustu herbergin eru á tæpar átta þúsund íslenskar.

Sjá heimasíðu Wake Up Copenhagen

Ace Hotel – Vagg og velta í London

Fyrir fimmtán árum síðan var ekki algengt að hótel væru til húsa í hráum byggingum og innréttuðum með notuðum mubblum. Í dag þykir þetta hins vegar móðins þökk sé stofnanda Ace hótelsins í Seattle. Í haust opnaði fyrsti evrópski gististaður Ace í Shoreditch hverfinu í London og þar halda menn tryggð við formúluna sem hefur fengið svo góðan hljómgrunn meðal ferðamanna síðustu ár. Þrátt fyrir rokkaraútlitið þá kostar sitt að búa á Ace hótelinu og nóttin er á um tuttugu og fimm þúsund krónur.

Sjá heimasíðu Ace Hotel í London

Room Mate Amsterdam – Herbergisfélagi í Amsterdam

Nýjasti gististaður spænsku hótelkeðjunnar Room Mate heiti Aitana og er til húsa á manngerði eyju stuttan spöl frá aðallestarstöðina í Amsterdam. Herbergisgluggarnir ná frá hólfi niður í gólf í þessu glerháhýsi og útsýnið því gott, sérstaklega frá efstu hæðunum. Ódýrustu herbergin eru á um sextán þúsund krónur.

Sjá heimasíðu Room Mate hótelsins í Amsterdam