Ódýrari Kanaríferðir í kortunum?

Egypskir ferðamálafrömuðir binda vonir við að forsetakosningarnar í lok mánaðar muni auka trú túrista á landinu. Það gæti haft jákvæð áhrif á verðlagið á Kanaríeyjum.

Áður en Hosni Mubarak var steypt af stóli í Egyptalandi stóð ferðaþjónustan undir tíund af þjóðartekjum landsins. Túristum hefur hins vegar fækkað ört síðustu ár vegna ótryggs ástands í  landinu. Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa til að mynda minnkað um helming frá árinu 2010 samkvæmt frétt Standby.

Ferðamálaráðherra Egyptalands bindur þó vonir við að botninum sé náð og fljótlega eftir forsetakosningarnar 27. maí verður ráðist í alþjóðlega markaðsherferð til að kynna landið fyrir ferðamönnum. Áætlanir egypskra ráðamanna gera ráð fyrir að árið 2020 muni tekur af ferðaþjónustunni vera um 25 milljarðar dollara en þær voru tæpir tíu milljarðar í fyrra.

Sólþyrstir Skandinavar dreifa sér víðar

Á meðan Íslendingar halda aðallega í sólarlandaferðir til Kanaríeyja og Flórída á veturna þá hefur Egyptaland lengi notið vinsælda á þessum árstíma meðal frændþjóðanna. Vegna ástandsins í landinu jókst hins vegar eftirspurnin eftir ferðum til Kanarí meðal Skandinava og það hafði áhrif á hótelverðið á spænsku eyjunum. Ef ferðaþjónustan í Egyptalandi réttir úr kútnum eru hins vegar líkur á að verðlagið á Kanarí lækki sem yrðu góð tíðindi fyrir þá fjölmörgu íslensku ferðalanga sem þangað fara á veturna.

TENGDAR GREINAR: Grikkland að hætti Egils HelgasonarKrítverskar kræsingar
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu á Krít og frí innflutningsgjöf