Rússlandsflugið fellt niður í júní

Í fyrradag felldu forsvarsmenn Icelandair niður flug til Sankti Pétursborgar í júní og sú ákvörðun stendur þó samið hafi verið við flugmenn í nótt.

Síðasta sumar var í fyrsta skipti boðið upp á beint áætlunarflug héðan til Rússlands. Icelandair flaug þá tvisvar í viku til Sankti Pétursborgar frá byrjun júní og fram á haustið. Ætlunin var að halda uppteknum hætti í ár en vegna verkfallsaðgerða áhafna félagsins verður ekkert flug í boði til borgarinnar í júní.

Haft var eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, í tilkynningu að með þessu væri reynt að létta á áætlun sumarsins og minnka þörf á yfirvinnu. Samningar tókust hins vegar við flugmenn félagsins í morgun en þrátt fyrir það verður flugið til Rússlands í júní fellt niður að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. Hann segir að unnið hafa verið að því síðustu daga að gera ráðstafanir fyrir farþega sem áttu bókuð sæti.

Minni eftirspurn vegna átaka

Líkt og Túristi greindi frá í vor þá höfðu fargjöld Icelandair til Rússlands lækkað töluvert frá því ársbyrjun. Líklegt er að spennan í samskiptum Úkraínu og Rússlands hafi haft áhrif á eftirspurnina því samkvæmt fréttum erlendra fjölmiðla hefur dregið mjög úr áhuga á ferðalögum til landanna tveggja síðustu misseri. Heimamenn ferðast einnig minna en í fyrra þar rússneska rúblan og úkraínski gjaldmiðillinn hry­vn­una hafa fallið töluvert og því er dýrara en áður fyrir íbúa landanna tveggja að ferðast til útlanda.

TENGDAR GREINAR: Lent á nýjum stað í Sankti PétursborgSkyldustoppin í Sankti Pétursborg
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu