Sólarlandaferðir seljast mun betur en í fyrra

Það er útlit fyrir að miklu fleiri Íslendingar ætli að verja hluta af sumarfríinu á suðrænum slóðum í ár en í fyrra. Forsvarsmenn ferðaskrifstofanna segja framboð á ferðum í sólina hafa aukist.

Það var leiðindaveður víða um land síðasta sumar þó íbúar fyrir norðan og austan hafi sloppið ágætlega. Það vildu því margir komast til útlanda í sumarfríinu og samkvæmt fréttum var fólk tilbúið til að fara hvert sem er svo lengi sem það kæmist í betra veður. Seldust þá margar ferðir upp en í ár hafa forsvarsmenn stærstu ferðaskrifstofa landsins aukið framboð á sólarlandareisum umtalsvert. Ferðaskrifstofan Vita hefur til að mynda fjölgað sætum um þrjátíu prósent, hjá Heimsferðum nemur aukningin tíund og Úrval-Útsýn hefur einnig bætt við sig frá því í fyrra samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum ferðaskrifstofanna þriggja.

Krít nýtur vinsælda

Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir að miðað við sama tíma í fyrra þá hafa selst um fimmtungi fleiri sæti og að hans sögn eru fjölskyldur farnast að ferðast meira. Margrét Helgadóttir, framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar, og Guðrún Sigurgeirsdóttir, framleiðslustjóri Vita, segja einnig að salan hafa gengið mun betur en á síðasta ári. Aðspurð um hvaða áfangastaðir það eru sem seljast best segja Guðrún og Tómas að Krít hafi vinninginn. „Það er eitthvað einstakt við Grikkland sem finnst hvergi annars staðar“, bætir Guðrún við.

Tíðar flugsamgöngur hafa líka sitt að segja um vinsældirnar og nefnir Margrét sem dæmi að til sumra staða er flogið þrisvar í viku á meðan aðeins er í boði ein vikuleg ferð á aðra staði.

Bóka aðeins dýrari gistingu

Síðustu ár hafa fleiri Íslendingar kosið gististaði þar sem allt fæði er innifalið í verðinu. Forsvarsmenn ferðaskrifstofanna þriggja verða hins vegar varir við minni eftirspurn eftir þess háttar hótelum og telur Margrét skýringuna meðal annars vera þá að gengi krónunnar er nú stöðugara og hagstæðara. Hjá Heimsferðum og Vita kjósa nú fleiri gistingu með hálfu fæði og Tómas segir fólk byrjað að bóka aðeins dýrari gistingu en áður. Guðrún nefnir einnig að þeir sem bóka hótel með öllu inniföldu finnist þeir oft missa af því sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða því þeir verja mestum tíma á hótelsvæðinu. 

TENGDAR GREINAR: Grikkland að hætti Egils HelgasonarKrítverskar kræsingar
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu á Krít og frí innflutningsgjöf