Síðasti mánuður var ekki góður fyrir flugfarþega hér á landi og seinkanir voru miklu lengri en á sama tíma á síðasta ári.
Í apríl í fyrra var meðaltöf á ferðum Icelandair og Wow Air, til og frá Keflavík, 2 til 3 mínútur. Hún var hins vegar um tuttugu mínútur að jafnaði í síðasta mánuði og skrifast þessi mikla aukning aðallega á vinnustöðvanir starfsmanna Isavia 8., 23. og 25. apríl.
Þessa þrjá daga lágu allar samgöngur um Keflavíkurflugvöll niðri frá klukkan fjögur um nótt og fram til klukkan tíu að morgni. Það kom aðallega niður á farþegum íslensku flugfélaganna því þau erlendu nota flugvöllinn sjaldan á þessum tíma sólarhringsins. Meðaltöf á ferðum Easy Jet var því ekki löng eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Ekki var tekið tillit til verkfallanna í útreikningum á stundvísi þó svo að bróðurpartur seinkananna hafi komið til vegna aðgerðanna. Ástæðan er sú að stundvísitölur Túrista gefa neytendum mikilvægar upplýsingar um áreiðanleika í flugi til og frá landinu. Því langar tafir geta sett ferðaplön flugfarþega úr skorðum og valdið þeim fjártjóni, t.d. ef tengiflug fer í súginn.
Vegna mistaka við úrvinnslu eru komutímar 13. og 26. apríl ekki hluti að stundvísitölunum.
Stundvísitölur Túrista – apríl 2014
1.-30.apríl | Hlutfall brottfara á tíma | Meðalseinkun brottfara | Hlutfall koma á tíma | Meðalseinkun koma | Hlutfall ferða á tíma | Meðalseinkun alls |
Icelandair |
72% |
19 mín | 68% | 20 mín | 70% | 19 mín |
Wow Air | 83% | 20 mín | 80% | 19 mín | 81% | 20 mín |
Easy Jet | 77% | 6 mín | 72% | 4 mín | 75% | 5 mín |
Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfarartímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um minna en korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru 14 mínútur dregnar frá öllum seinkunum sem eru 15 mínútur eða lengri. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.
VINSÆLT: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
Mynd: Gilderic/Creative Commons