Úthlutun afgreiðslutíma tekin til skoðunar á ný

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafa tekið til meðferðar nýtt erindi frá WOW air sem varðar úthlutun á brottfarar- og komutímum á Keflavíkurflugvelli.

Í mars á síðasta ári sendu forsvarsmenn WOW air erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem kvartað var yfir því hvernig Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, úthlutar flugfélögum afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vildi WOW air fá tíma að morgni og seinnipart dags fyrir flug til og frá Bandaríkjunum en Icelandair hefur nýtt öll þau pláss sem eru í boði fyrir flug, til landa utan Schengen svæðisins, í morgunsárið og milli klukkan 16 og 17:30 síðdegis.

Í haust tók eftirlitið undir kröfu WOW air og úrskurðaði að Isavia ætti að láta flugfélagið fá umbeðna tíma.

Isavia og Icelandair áfrýjuðu niðurstöðunni og bentu forsvarsmenn Isavia á að úthlutunin færi eftir alþjóðlegum reglum og væri ekki í höndum félagsins. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins úr gildi stuttu síðar.

Nú hafa forsvarsmenn WOW air sent inn nýtt erindi vegna sumaráætlunar næsta árs. Málið hefur verið tekið til meðferðar samkvæmt svari frá Samkeppniseftirlitinu og varðar það sömu álitaefni og áður. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald málsins hjá eftirlitinu.

TILBOÐ Á GISTINGU Í BERLÍN OG KAUPMANNAHÖFN
TENGDAR GREINAR: Deilt um flugvélastæðin í KeflavíkSegir Samkepnniseftirlitið leggja sér orð í munn
NÝTT: FRÖNSK FJÖLL OG SVISSNESKAR SVEITIR
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM