Aldrei eins margir Kanadabúar á Íslandi

Flugsamgöngur milli Íslands og Kanada hafa ekki áður verið jafn góðar. Kanadískum ferðamönnum fjölgar hratt hér á landi.

Í síðasta mánuði innrituðu 4.020 kanadískir farþegar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli. Þeir hafa ekki áður verið jafn margir í einum mánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Til samanburðar má nefna að árin 2004 til 2006 komu hingað um fjögur þúsund Kanadamenn á ári.

Fyrstu fimm mánuði þessa árs er fjöldinn hins vegar kominn uppí 11.318. Það er tvöföldun frá sama tímabili í fyrra.

Ekki lengur hömlur á flugi

Icelandair hóf flug að nýju til Kanada árið 2007 þegar Halifax bættist við leiðakerfi félagins. Ári síðar var jómfrúarferðin til Toronto farin og í framhaldinu fjölgaði ferðamönnum frá Kanada úr 4.424 í 10.568.

Í nóvember síðastliðnum var hömlum á flugi frá Íslandi til Kanada aflétt og í kjölfarið flaug Icelandair í fyrsta skipti til Toronto yfir vetrarmánuðina. Það hafði þau áhrif að ferðamannastraumurinn frá Kanada tók aftur mikinn kipp í vetur og sú þróun hélt áfram í vor þegar Icelandair hóf flug til Edmonton í mars og Vancouver í maí. „Það á það sama við um Kanada og aðra áfangastaði í Norður Ameríku. Aukin eftirspurn kemur í kjölfar aukinnar fjárfestingar okkar á markaðnum – í kjölfar þess að við fjölgum áfangastöðum, aukum tíðni eða fljúgum yfir lengra tímabil.“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður um þessi aukningu í komum ferðamanna frá Kananda.

Áttfaldaðist á áratug

Á árunum 2003 til 2013 fjölgaði erlendum ferðamönnum hér á landi um rúm 150 prósent en á sama tíma rúmlega áttfaldaðist fjöldi kanadískra túrista. Þeir eru nú áttunda fjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Í því ljósi er áhugavert að velta fyrir sér hvort fleiri kanadískar borgir bætist við leiðakerfi Keflavíkurflugvallar á næstunni. Í dag flýgur Icelandair til þriggja af fimm fjölmennustu borgum landins auk Halifax sem er í fjórtánda stæti. Montreal í Quebec fylki er næststærsta borg Kanada og verður að teljast líklegur kandídat ásamt Quebec City. Í síðarnefndu borginni búa um sjö hundruð þúsund manns og líkt og í Edmonton er framboð á flugi þaðan til Evrópu mjög takmarkað.