Misdýrt að kaupa sig frá sjálfsábyrgð bílaleiga

Það getur verið dýrt að lenda í tjóni á bílaleigubíl og því miður rukka leigurnar sjálfar þá áhættufælnu um mjög hátt daggjald ef þeir vilja losna við alla ábyrgð. Það eru þó aðrir kostir í stöðunni.

Kaskótrygging er oftast innifalin í leigunni en sjálfsábyrgð á hefðbundnum bílaleigubíl er um tvö hundruð þúsund krónur. Upphæðin er mismunandi eftir fyrirtækjum og bílategund. Það er þó hægt að komast hjá sjálfsábyrgðinni með því að kaupa sérstaka tryggingu sem kallast oftast „Super Cover“. Sjaldnast er hægt að bóka hana þegar gengið er frá leigunni á heimasíðum bílaleigufyrirtækjanna. Þess í stað bjóða starfsmenn bílaleiganna trygginguna þegar lyklarnir eru sóttir. Með því að kaupa þessa aukaþjónustu hefur reikningurinn hækkað ríflega því stóru bílaleigurnar rukka tæpar 5000 krónur á dag (um 30 evrur) fyrir trygginguna. Það fæst þó afsláttur ef leigutíminn er meira en vika.

SJÁ EINNIG: Verðið hríðlækkar á bílaleigum Spánar

Ódýrari valkostir

Bílaleigumiðlarara bjóða viðskiptavinum sínum upp á þessar aukatryggingar og er gjaldið þá oftast á bilinu 1100 til 1500 krónur á dag. Það er töluvert lægra en bílaleigurnar sjálfar bjóða og skilmálarnir svipaðir, hvorug tryggingin bætir til dæmis tjón á dekkjum, undirvagni eða gluggum. Breska bílatryggingafyrirtækið Insurance4carhire segir hins vegar sínar tryggingar taka til þessara þátta og er iðgjald félagsins 3,99 pund á dag (745 kr.).

Verðmunurinn er því allt að sjöfaldur en ókosturinn er sá að ef það verður tjón þá verður leigutakinn að sjá um að sækja bæturnar hjá breska tryggingafyrirtækinu. Ferlið er líklega einfaldara ef tekin er trygging hjá miðlaranum eða bílaleigunni sjálfri.

Samstarfsaðili Túrista, Rentalcars.com, býður niðurfellingu á sjálfsábyrgð og verðið og skilmálarnir sjást þegar smellt er á bílana sem birtast þegar leitað er eftir verðtilboðum.

BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM
TENGDAR GREINAR: Helmingi dýrara að leigja bíl í júní en ágúst –  Bílaleigubílar dýrastir á Íslandi