Bílaleigubílar dýrastir á Íslandi

Það kostar nærri þrisvar sinnum meira að leigja bíl við komuna til Íslands en á flugvöllunum í Kaupmannahöfn og London. Hér má sjá meðalleiguverð á dag við sextán evrópskar flughafnir.

Það getur verið dýrt að hafa bíl til umráða í utanlandsferðinni. Jafnvel þó lítill tveggja dyra bíll sé látinn nægja því það er algengt að leiga á þess háttar ökutæki sé á bilinu þrjú til fjögur þúsund krónur á dag á bílaleigunum við helstu flugvelli Evrópu. Ferðamaður sem fær lítinn fólksbíl að láni á Keflavíkurflugvelli þarf hins vegar að greiða tæpar tíu þúsund krónur á dag eða þrefalt meira en gengur og gerist á meginlandinu samkvæmt verðkönnun Túrista. Hvergi annars staðar voru verðin jafn há en næst hæst er leigan við Gardermoen í Osló og því næst í Zurich. Báðar borgir skipa reglulega efstu sætin á listum yfir dýrustu borgir heims.

Mismunandi verð eftir mánuðum

Í könnuninni voru fundin lægstu verð á bifreiðum í minnsta flokki á bílaleigum við sextán evrópskar flugstöðvar í júní, júlí og ágúst og síðan reiknað út meðalverð. Í öllum tilvikum var ótakmarkaður akstur, fríar afbókanir og kaskótrygging innifalin í verðinu og oftast voru leigurnar með afgreiðslu inn í flugstöðvarbyggingum. Hér neðst má sjá hver leigan er eftir mánuðum en miklu munar á verðinu í júní í samanburði við júlí og ágúst.

Við leitina var notuð bókunarvél Rentalcars.com, samstarfsaðila Túrista og eins stærsta fyrirtækis heims á þessu sviði. Þess ber að geta að verðin sem bókunarvélin finnur eru oft talsvert lægri en þau sem bjóðast þegar farið er beint inn á heimasíður þekktustu bílaleiganna.

Meðalleiguverð á dag í sumar

Það er mun ódýrara að leigja bíl júní en í júlí og ágúst eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Af flugvöllunum sextán sem kannaðir voru var verðmunurinn á milli mánaða er einna mestur á bílaleigum við Barcelona flugvöll. Svipaða sögu er að segja við Charles de Gaulle í París og Malpensa í Mílanó. Verðið helst þó nokkuð jafnt í Stokkhólmi og Zurich.

Hver þróunin verður næstu vikur er erfitt að segja og gengi krónunnar hefur líka sitt að segja en samkvæmt nýlegri könnun Túrista þá hefur leiguverðið í Alicante í júní lækkað frá því í vor.

Meðalverð bílaleiga á 16 flugvöllum ef bíll í ódýrasta flokki er leigður í 2 vikur.