Delta fjölgar ferðum um fimmtung

Á fimmtudaginn hefst á ný sumarflug bandaríska flugfélagsins Delta. Adrei áður hefur félagið boðið upp á jafn margar ferðir til og frá Keflavík og með tilkomu félagsins eykst framboð á ferðum héðan til New York um nærri fjörtíu prósent.

Yfir veturinn er Icelandair eina flugfélagið sem flýgur héðan vestur um haf en á sumrin bætist við áætlunarflug Delta til New York. Bandaríska félagið bauð í fyrsta skipti upp á flug til Keflavíkur sumarið 2011 og hefur fjölgað ferðum sínum hingað jafnt og þétt milli ára. Í sumar mun félagið í fyrsta skipti bjóða upp á daglegar brottfarir og aukast umsvifin um fimmtung frá því í fyrra. „Því er spáð að ferðamönnum frá Bandaríkjunum til Íslands fjölgi um 30 prósent á þessu ári og Delta er að bregðast við þessum vaxandi áhuga með því að fjölga flugferðum,” segir Perry Cantarutti, forstjóri Delta í Evrópu í tilkynningu frá félaginu.

Cantarutti bendir jafnframt á að fjölgun ferða opni líka möguleika fyrir þá sem hefja ferðalagið á Íslandi en Delta tók nýlega í notkun nýja flugstöð á JFK flugvelli í New York og þaðan er hægt að fljúga áfram til 50 áfangastaða í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku.

25 ferðir í viku til New York

Icelandair flýgur til tveggja flugvalla í nágrenni við Manhattan allt árið um kring. Í sumar flýgur félagið tvær ferðir á dag til JFK flugvallar og fjórar í viku til Newark. Þar með verða farnar 25 ferðir í viku frá Keflavík áleiðis til New York borgar yfir aðalferðamannatímann í ár. Íslandsflug Delta hefst á fimmtudaginn.

GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á GISTINGU Í NEW YORK

TILBOÐ Á SÓLARLANDAFERÐUM
NÝJAR GREINAR: DÝRT AÐ TAKA TVÆR TÖSKUR MEÐ Í FRÍIÐ
SÓLARSTRENDUR SUMARSINS