Ekki útlit fyrir tafir á Frakklandsflugi frá Íslandi

Sex daga vinnustöðvun franskra flugumferðarstjórar mun líklega setja samgöngur til og frá Frakklandi úr skorðum en þó er útlit fyrir að flugið héðan til Parísar og Lyon gangi snurðulaust fyrir sig.

Franskir ráðamenn ætla að spara á sviði flugmála næstu ár og þeirri ákvörðun ætla flugumferðarstjórar í landinu að mótmæla með því að leggja niður störf frá 24. til 29. júní. Samkvæmt fréttum hafa forsvarsmenn flugumferðarstjóra lengi barist fyrir betrumbótum á sínu sviði en með nýjasta útspili stjórnvalda telja þeir útilokað að hægt verði að ráðast í fjárfestingar í betri starfsumhverfi í frönskum flugturnum.

Flugið héðan óbreytt

Á miðnætti hefst verkfallið en til að tryggja flugsömgöngur um franska lofthelgi þá mun aðeins helmingur flugumferðarstjóra vera frá vinnu í einu. Frönsk flugmálayfirvöld hafa hins vegar beðið flugfélög um að fækkað ferðum sínum um fimmtung um nokkra af stærstu flugvöllunum, þar á meðal vellina í nágrenni við París og í Lyon. Icelandair, Transavia og WOW air fljúga héðan til Parísar og eins býður WOW air upp á flug til Lyon. Samkvæmt upplýsingum frá íslensku félögunum er ekki búist við að áætlun þeirra riðlist vegna verkfallsins en ef það gerist þá verður tilkynnt um það á heimasíðum félaganna.

Innanlandsflugið hugsanleg verst úti

Þeir sem eiga pantað innanlandsflug í Frakkland í vikunni gætu hins vegar orðið fyrir áhrifum vegna ástandsins og því vissara að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu viðkomandi flugfélags. Á heimasíðu Air France, stærsta flugfélags Frakklands, segir að flug frá París til suðurhluta landsins muni helst verða fellt niður.

GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM Í FRAKKLANDI
TENGDAR GREINAR: Ráðast í endurbætur svo færri missi af tengifluginu

NÝJAR GREINAR: ENGIN SAMKEPPNI Í FLUGI TIL KANADA Í KORTUNUMNÚ VERÐUR ÓDÝRARA AÐ DEILA FRÍINU MEÐ FÓLKINU HEIMA