Samkeppnin í flugi til London gæti aukist í vetur

Í dag fljúga easyJet, Icelandair og WOW air til flugvallanna í nágrenni við London. Fjórða félagið hefur nú fengið afgreiðslutíma í Keflavík fyrir flug til borgarinnar.

Ferðamannastraumurinn hingað frá Bretlandi hefur aukist mikið síðustu ár og öfugt við flestar þjóðar þá eykst eftirspurnin eftir Íslandsferðum þar í landi utan aðalferðamannatímans. Í febrúar voru Bretar til að mynda fjölmennari í innritunarsal Keflavíkurflugvallar en Íslendingar og var það í fyrsta skipti sem heimamenn eru ekki stærsti hópurinn samkvæmt talningum Ferðamálastofu.

Hafa hug á að fljúga hingað frá fleiri borgum

Nú hafa forsvarsmenn norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian fengið úthlutaða þrjá afgreiðslutíma í viku á Keflavíkurflugvellifyrir flug til og frá Gatwick flugvelli við London. Það eru jafn margar ferðir og easyJet bauð upp á þegar Íslandsflug félagsins hófst vorið 2012. Það er þó ekki fullvíst að Norwegian muni hefja flug á þessari leið í vetur samkvæmt svari félagsins við fyrirspurn Túrista. Í dag flýgur Norwegian hingað frá Osló og Bergen en félagið nýtti sér ekki leyfi til að hefja flug hingað frá Kaupmannahöfn í sumar en eins og kom fram í viðtali Túrista við forstjóra Norwegian þá hafa forsvarsmenn félagsins hug á auka umsvif sín hér á landi.

Fjórða hver vél til London

Það var boðið upp á allt að fjörtíu flug í viku frá Keflavík til höfuðborgar Bretlands í vetur og lét nærri að fjórða hver vél sem tók á loft í Keflavík tæki stefnuna á flugvellina í nágrenni við London. Icelandair stóð fyrir helmingi ferðanna, WOW air bauð upp á þrettán flug í viku og easy Jet flaug daglega.

Breska félagið fækkaði svo ferðunum í vor og sumar en mun aftur bjóða upp á sjö flug í viku eftir áramót. WOW air mun hins vegar fækka sínum ferðum til Gatwick úr þrettán í viku niður í tíu. Icelandair heldur sínu striki og flýgur tvisvar á dag til Heathrow og fimm til sex ferðir í viku til Gatwick.

GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM
NÝJAR GREINAR: ENGIN SAMKEPPNI Í FLUGI TIL KANADA Í KORTUNUMNÚ VERÐUR ÓDÝRARA AÐ DEILA FRÍINU MEÐ FÓLKINU HEIMA