Flugmenn Greenland Express komust ekki til Keflavíkurflugvallar

Verkfall flugvirkja Icelandair hafði ekki aðeins áhrif á flugáætlun vinnuveitenda þeirra heldur seinkaði líka jómfrúarferð nýs flugfélags um nærri sólarhring.

Í gærmorgun tók vél merkt Greenland Express á loft frá flugvellinum í Álaborg í Danmörku og hélt áleiðis til Kaupmannahafnar. Frá Kastrup var stefnan sett á Keflavík og þaðan áfram til Narsarsuaq. Þegar vélin lenti í Keflavík á ný eftir ferðina yfir til Grænlands stóð til að skipta um áhöfn og halda fluginu áfram til Danmerkur.

Ekkert varð úr því þar sem ný áhöfn félagsins hafði ekki skilað sér til Íslands í tæka tíð og sú gamla mátti ekki halda áfram vegna ákvæða um hvíldartíma. Þeir ellefu farþegar sem voru um borð í vélinni urðu því að gista í nótt á Hótel Keflavík og áformað er að halda ferðinni áfram nú í morgunsárið.

Í viðtali við danska ferðaritið Checkin.dk segir framkvæmdastjóri Greenland Express að afleysingafólkið hafi ekki komist til Íslands á réttum tíma þar sem flug þeirra með Icelandair á mánudag var fellt niður vegna verkfalls.

Fáir farþegar

Eins og áður segir voru aðeins ellefu farþegar í vél Greenland Express á leið frá Grænlandi til Danmerkur með viðkomu á Íslandi. Upphaflega stóð til að félagið myndi fljúga daglega milli landanna þriggja frá og með byrjun júnímánaðar en vegna lítillar eftirspurnar voru fyrstu ferðirnar felldar niður. Frá og með 1. júlí stendur hins vegar til að fljúga samkvæmt áætlun. Samkvæmt frétt Akv.is þá mun Greenland Express einnig bjóða upp á flug milli Akureyrar og Danmerkur.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu var því haldið fram að Eyjaflug væri meðal eigenda Greenland Express en svo mun ekki vera.

Skrifstofa Greenland Express er í Reykjavík.

SÓLARLANDAFERÐIR Á AFSLÆTTI


VINSÆLT: Svona borgar þú miklu minna fyrir bílaleigubíl
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu út um allan heim