Mestar líkur á að ferðataskan glatist í Evrópu

Það eru fimm sinnum meiri líkur á að þú komir tómhentur á áfangastað þegar ferðast er innan Evrópu en Asíu.

Níu af hverjum þúsund ferðatöskum sem fara í gegnum evrópskar flughafnir er stolið, þær týnast eða finnast löngu síðar. Þó hlutfallið sé ekki ýkja hátt þá er það engu að síður mun hærra en gengur og gerist á flugvöllum í Asíu og N-Ameríku samkvæmt nýrri skýrslu fyrirtækisins SITA.

Í Asíu týnast tvær af hverjum þúsund töskum og í Norður-Ameríku er hlutfallið helmingi hærra eða þrjár af þúsund.

Á heimsvísu fækkaði þeim tilfellum sem ferðatöskur glötuðust um 17,2 prósent en á sama tíma fjölgaði flugfarþegum um 5,1 prósent.

Miklar framfarir

Þegar SITA hóf að taka saman upplýsingar um týndan farangur flugfarþega árið 2007 þá þurftu um sautján af hverjum þúsund flugfarþegum í Evrópu að sætta sig við að fara tómhentir út úr flugstöðinni. Ástandið í álfunni hefur því batnað um nærri helming en er þó ennþá mun verra en það var vestanhafs og í Asíu árið 2007. Það er því langt í land með að farangurskerfi evrópskra flugvalla verði jafn skilvirkt og þekkist í annars staðar.

Fara í annarri vél

Átta af hverjum tíu töskum sem ekki skila sér á farangursbandið hafa ekki komist um borð í sömu vél og eigandinn og er hættan á að það gerist sérstaklega mikil þegar farþeginn millilendir. Hinar töskurnar skemmast eða er stolið samkvæmt frétt Checkin.dk.

Stolið úr töskum íslenskra farþega

Líkt og Túristi greindi frá þá er nokkuð um að íslensku tryggingafélögunum berist tilkynningar um þjófnað úr ferðatöskum sem hafa verið innritaðar í flug. Í síðasta ári skiptu tilfellin nokkrum tugum. Ekki er hægt að greina mun á fjölda þeirra eftir því hvort flogið er til og frá Íslandi eða milli tveggja erlendra flugvalla.

TENGDAR GREINAR: HÉR ERU FLESTIR ÍSLENSKIR FERÐAMENN RÆNDIRTRYGGT FERÐALAG
BÍLALEIGUBÍLAR: BÓKAÐU Í DAG EN BORGAÐU SÍÐAR
TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Á HÓTELI VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ Í KÖBEN