Tilboðsferðirnar ódýrari en í fyrra

Undanfarið hafa afsláttarverð WOW air á flugmiðum verið mun lægri en þau voru í fyrra. Á þeim tíma hefur easyJet nær tvöfaldað framboð sitt á flugi til og frá Keflavík. Úrval af ódýrum farmiðum er töluvert hjá lággjaldaflugfélögunum sem hingað fljúga.

Í byrjun síðasta sumars auglýsti WOW air nokkur tilboð á flugi til áfangastaða sinna í júní til ágúst og voru þá lægstu fargjöldin á bilinu 14.900 til 24.900 krónur. Síðustu vikur hefur félagið hins vegar boðið sumarflug á 6.990 til 9.900 krónur með jöfnu millibili. Þannig var hægt að bóka miða til Parísar í sumar á 8.990 krónur þann 5. og 16.júní en í fyrra auglýsti félagið tilboð á flugi til borgarinnar þann 28.maí á 14.900 krónur. Munurinn er álíka á lægstu fargjöldum til Amsterdam, Kaupmannahafnar, London, Lyon, Mílanó og fleiri áfangastaða.

Hörð samkeppni

„Við erum einfaldlega að fylgja stefnu okkar að bjóða alltaf lægstu fargjöldin til og frá Íslandi,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í svari við fyrirspurn Túrista um hver ástæðan sé fyrir því að félagið bjóði lægri tilboðsverð í ár. Aðspurð um hvort það sé þá niðurstaða stjórnenda WOW air að fargjöldin hafi almennt lækkað á markaðnum segir hún samkeppnina vissulega vera harða, félagið fagni henni og haldi áfram að bjóða lægstu verðin.

easyJet bætir miklu við

Líkt og Túristi greindi frá var mikið úrval af ódýrum fargjöldum frá Keflavík í síðustu viku. Stór hluti ferðanna var með breska lággjaldaflugfélaginu easyJet. Anna Knowles, talskona félagsins, segir að þrátt fyrir það þá hafi sala á nýjustu flugleiðum easyJet hingað, frá Bristol og Basel, gengið vel og sömu sögu sé að segja um hina áfangastaðina í samanburði við sama tíma í fyrra. Hún bendir jafnframt á að framboð easyJet á sætum til og frá Íslandi hafi aukist um 81 prósent í sumar frá því í fyrra. Breska félagið er nú þriðja umsvifamesta flugfélagið hér á landi á eftir Icelandair og WOW air.

Fleiri með niðursett verð

Það er þó ekki aðeins hjá easyJet og WOW air sem íslenskir flugfarþegar geta ennþá fundið flugfargjöld á tilboðsverði í sumar. Spænska flugfélagið Vueling bauð nýlega afslætti á farmiðum héðan til Barcelona, fargjöld German Wings til Berlínar, Kölnar og Stuttgart eru líka lægri en þau hafa verið samkvæmt athugun Túrista og Thomas Cook Airlines er ódýr kostur fyrir þá sem ætla til Brussel.

Í síðustu verðkönnun Túrista á flugfargjöldum kom í ljós að munurinn á lægstu fargjöldum á easyJet og WOW air í júlí og september er lítill en Icelandair er nokkru dýrari kostur.

SMELLTU TIL AÐ SJÁ HVAÐA FLUGFÉLÖG FLJÚGA FRÁ KEFLAVÍK Í SUMAR

GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM
NÝJAR GREINAR: ENGIN SAMKEPPNI Í FLUGI TIL KANADA Í KORTUNUMNÚ VERÐUR ÓDÝRARA AÐ DEILA FRÍINU MEÐ FÓLKINU HEIMA