Samkeppni í flugi til Kanada ekki í kortunum

Í lok síðasta árs var hömlum á flugi héðan til Kanada aflétt og í kjölfarið jók Icelandair framboð sitt á flugi þangað töluvert. Það er útlit fyrir að félagið verði áfram það eina sem sjái hagi í að fljúga héðan til kanadískra áfangastaða.

Kanadískum ferðamönnum hér á landi hefur fjölgað mjög hratt síðustu ár og í maí síðastliðnum komu hingað rúmlega fjögur þúsund Kanadamenn. Það er álíka fjöldi og kom hingað yfir árin 2004 til 2006 líkt og Túristi greindi frá. Icelandair hefur flogið um árabil til Halifax og Toronto og bætti Edmonton og Vancouver við leiðakerfi sitt í ár. Þessu aukna framboði virðist hafa vera vel tekið í Kanada því það sem af er ári hefur ferðamannafjöldinn þaðan tvöfaldast en á sama tíma hefur erlendum ferðamönnum hér fjölgað um rúm 31 prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Ekki fleiri kostir á næstunni

Stjórnendur WOW air hafa uppi áætlanir um að hefja flug til Bandaríkjanna á næstunni en þegar Túristi spurðist fyrir um hvort félagið hefði einnig augastað á áfangastöðum í Kanada var svarið á þá leið að forsvarsmenn félagsins vilji ekki tjá sig um áform sín um Norður-Ameríku að sinni. Aðspurður um áhuga sinn á Íslandsflugi segir Robert Atkinson, framkvæmdastjóri hjá Air Canada, að félagið fylgist vel með eftirspurn á markaðnum og skoði reglulega tækifæri á nýjum flugleiðum en á þessari stundu sé þó ekki tímabært að tilkynna um nýja áfangastaði hjá félaginu. Air Canada er stærsta flugfélagið í Kanada og ákváðu forsvarsmenn þess að draga úr framboði sínu á flugi til Edmonton þegar Icelandair tilkynnti um flug þangað í haust.

SÓLARLANDAFERÐIR Á AFSLÆTTI

VINSÆLT: Svona borgar þú miklu minna fyrir bílaleigubíl
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu út um allan heim