Sólarstrendur sumarsins

Það fljúga rúmlega hundrað þúsund íslenskir farþegar út í heim yfir sumarmánuðina. Líklega eru margir þeirra er á leið á suðrænar slóðir því sólarlandaferðir eru stór hluti af framboði ferðaskrifstofanna hér á landi.

Í byrjun sumars fara fyrstu þoturnar héðan í átt að baðströndunum sem íslenskir ferðamenn fjölmenna á þegar hlýna tekur í veðri. Sumarferðirnar hafa verið í sölu frá áramótum og forsvarsmenn stærstu ferðaskrifstofanna hafa sagt að fleiri sæti hafi selst núna en á sama tíma í fyrra. Það sést líka á heimasíðum fyrirtækjanna að nú þegar er sumar brottfarir uppseldar. Framboð á klassískum sólarlandaferðum hefur hins vegar aukist milli ára hjá Heimsferðum, Úrval-Útsýn og Vita og í ofan á lag hóf norræna ferðaskrifstofan Nazar starfsemi hér á landi í ár og býður upp á rúmlega tvö þúsund sæti til Tyrklands í sumar.

Höldum tryggð við Spán

Í gegnum tíðina hefur Spánn verið vinsæll áfangastaður sólþyrstra Íslendinga. Á veturna er flogið að minnsta kosti vikulega héðan til Kanarí og Tenerife og á sumrin færist straumurinn yfir á meginlandið. Spænskir strandbæir eru mjög áberandi á listum ferðaskrifstofanna og spilar þar inn í að flugsamgöngur milli Íslands og Spánar eru jafnan töluverðar frá vori og fram á haust. Þær takmarkast þó aðallega við Alicante og Barcelona en einnig er flogið til Madrídar. Í vélunum á leið til fyrrnefndu borganna verða því fjölmargir farþegar sem hafa keypt sér pakkaferð á sólarströnd í Katalóníu eða Costa Blanca. Að auki verður í boði leiguflug til suðurstrandar Spánar. Möguleikar íslenskra túrista á beinu flugi til suðurhluta Frakklands, Portúgals, Spánar og Ítalíu eru nánast engir en meðal frændþjóðanna er mikið úrval af ferðum þangað.

Nýjungar sumarsins

Það tekur rúma sex tíma að fljúga á vinsælustu sólarstrendurnar í austurhluta álfunnar frá Keflavík. Flugið þangað kostar því meira en til Spánar og það er líklega ein helsta ástæða þess að íslensku ferðaskrifstofunnar hafa ekki boðið upp á margar ferðir til Grikklands, Tyrklands og Króatíu síðustu ár. En þó gerðist það í fyrra að gríska eyja Krít komst á kortið á ný og hefur sú viðbót fengið góð viðbrögð hjá íslenskum ferðalöngum samkvæmt fréttum. Í ár bætast svo á ný við reglulega ferðir til Tyrklands.

Úrvalið af sólarstrandaferðum er því nokkru betra nú en árin á undan og nú þegar er hægt að finna sólarlandaferðir á tilboði.

TILBOÐ: 15% AFSLÁTTUR Í KAUPMANNAHÖFN
ORLOFSÍBÚÐIR: Í PARÍSÍ BARCELONA
BÍLALEIGA: GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM