Samfélagsmiðlar

Soltinn í Seattle

Mættu með tóman maga í matarkistu miðborgar Seattle. Þar er nefnilega mikið úrval af girnilegum skyndibita fyrir ferðamenn.

Í meira en öld hafa íbúar Seattle getað sótt sér í matinn á Pike Place Market niðri við höfnina. Þessi bændamarkaður er einn sá elsti í Bandaríkjunum og er fyrir löngu orðið eitt af kennileitum borgarinnar. Ferðalangar eru því fjölmennir á svæðinu en heimamenn láta það ekki slá sig út af laginu og markaðurinn enn meðal þess sem íbúarnir kunna best við í borginni.

En þar sem erfitt er að taka með sér nautasteikur, krækling eða grænmeti heim úr fríinu þá verða ferðamenn að láta sér nægja að borða á staðnum. Og það er sko ekki amalegt hlutskipti.

Hér eru fjórir skyndibitastaðir sem vert er að mæla með á markaðssvæðinu.

Penne í ostabúð

Það gerist víst ekki hversdagslegra á bandarískum heimilum en að bjóða upp á Mac & Cheese, pasta í ostasósu. Í ostabúðinni Beecher´s er þessum rétti lyft upp á hátt plan enda er osturinn búinn til að staðnum og matargestir geta horft á ostagerðamanninn að störfum á meðan þeir snæða. Lítið box af Mac & Cheese kostar rúma fimm dollara (tæpar 600 krónur) og þar sem rétturinn er ansi mettandi þá dugar minni skammturinn. Sérstaklega þar sem það þarf að gera fleiri stöðum skil. Beecher’s er á horni Pine St. og Pike. Pl. beint á móti aðalbyggingu markaðarins.

Besta súpa landsins ár eftir ár

Fyrir nokkrum árum síðan sendi kokkurinn á Pike Place Chowder inn uppskrift í eina þekktustu súpukeppni Bandaríkjanna. Hann vann og hefur haldið fyrsta sætinu allar götur síðan. Aðstandendum keppninnar til mikillar mæðu því skiljanlega minnkar áhuginn á keppninni þegar gullið er eiginlega veitt fyrirfram. Þeir sem vilja bragða á þessum matarmiklu súpum ættu að rata á góðu lyktina í Post Alley, huggulegu húsasundi við markaðinn. New England Clam Chowder er verðlaunasúpa staðarins og kostar skammturinn um 5 dollara.

Hressandi engiferdrykkur

Við hliðina á súpustaðnum er Rachel´s Ginger Beer til húsa. Drykkur hússins er blandaður úr fersku engiferi og hann rífur svo sannarlega í hálsinn, þó á jákvæðan hátt og það er ekki laust við að allur kroppurinn fagni þessari hressandi blöndu um leið og áhrifa hans gætir í öllu kerfinu. Það er líka seldir kokteilar á staðnum.

Kleinuhringir hússins

Í aðalbyggingu Pike Place Market er að finna hinn raunverulega matarmarkað þar sem sælkerar Seattle geta keypt í matinn. En ætli margir þeirra freistist ekki til að taka með sér poka af litlum kleinuhringjum frá Daily Dozen Doughnuts sem seldir eru eftir vigt. Lítill poki af þessum djúpsteiktu sprengjum kostar um þrjá dollara (340 krónur) og feitin er fljót að setja mark sitt á bréfpokann. Það er því um að gera að háma góðgætið í sig á staðnum. En þeir sem vilja kaffi með geta sótt það á fyrsta Starbucks staðinn sem er einmitt á markaðnum. Þar er þó alla jafna löng röð.

Hótel hússins

Þeir sem vilja gista sem næst þessum freistingum ættu að kanna stöðuna á hinu sjarmerandi hóteli Inn at the Market sem er rétt við markaðinn. Þeir heppnu fá útsýni úr herberginu yfir markaðinn og Elliot flóa.

Icelandair býður upp á daglegar ferðir til Seattle og þó borgin sé á vesturströndinni þá er flugferðin þangað aðeins tæpum tveimur tímum lengri en til Boston og New York.

LESTU LÍKA: VEGVÍSIR FYRIR SEATTLE

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …