Verkfallsaðgerðir flugmanna Icelandair höfðu mikil áhrif á stundvísi félagsins í síðasta mánuði. WOW air og easyJet voru hins vegar oftast á réttum tíma.
Forsvarsmenn Icelandair reiknuðu með að ferðir félagsins yrðu með venjulegum hætti eftir að lögbann var sett á aðgerðir flugmanna félagsins 15. maí. Svo varð ekki og þá daga sem lögbannið gilti og þar til samningar tókust seinkaði sex af hverjum tíu ferðum líkt og Túristi greindi frá. Þessar miklu tafir urðu til þess að aðeins um helmningur ferða Icelandair, til og frá landinu, í maí voru á réttum tíma samkvæmt stundvísitölum Túrista. Meðaltöfin var 16 mínútur.
Hjá WOW air og easyJet hélt áætlunin í langflestum tilfellum og að jafnaði seinkaði ferðum félaganna lítið sem ekkert eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Umsvifamestu félögin
EasyJet, Icelandair og WOW air stóðu fyrir meira en níu af hverjum tíu ferðum sem boðið var upp á frá Keflavík í maí og hlutdeild Icelandair var 72,5 prósent. Ferðir annarra félaga voru það fáar að ekki er hægt að bera frammistöðu þeirra saman við þessi þrjú félög.
Stundvísitölur Túrista – maí 2014
1.-31.maí | Hlutfall brottfara á tíma | Meðalseinkun brottfara | Hlutfall koma á tíma | Meðalseinkun koma | Hlutfall ferða á tíma | Meðalseinkun alls |
Icelandair |
49% |
18 mín | 60% | 14,5 mín | 54% | 16 mín |
Wow Air | 92% | 1 mín | 90% | 2 mín | 91% | 1,5 mín |
Easy Jet | 85% | 2 mín | 92% | 1 mín | 88% | 2 mín |
Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfarartímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um minna en korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru 14 mínútur dregnar frá öllum seinkunum sem eru 15 mínútur eða lengri. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.
VINSÆLT: Svona borgar þú minna fyrir bílaleigubíl
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bókaðu besta kostinn
Mynd: Gilderic/Creative Commons