Vægi sumarferða lækkar

Síðasta ár var október vinsælasti ferðamánuðurinn og utanlandsferðir Íslendinga dreifast jafnar yfir árið.

Yfir sumarmánuðina í fyrra flugu fimm þúsund færri íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli en í júní, júlí og ágúst árið 2012. Samdrátturinn nam rúmum fjórum prósentum en sumrin á undan hafði ferðagleði Íslendinga aukist jafnt og þétt milli ára. Skortur á hagstæðum flugmiðum og pakkaferðum kann að hafa haft áhrif því samkvæmt fréttum komust færri út en vildu þegar líða tók á sumarið og fólk var orðið langþreytt á veðurfarinu.

Strax í september fjölgaði ferðum landans til útlanda á ný og í október fóru nærri þrjátíu og átta þúsund Íslendingar út. Þetta er í fyrsta skipti sem vinsælasti ferðamánuður ársins er ekki einn af sumarmánuðunum þremur samkvæmt talningum Ferðamálastofu sem ná aftur til ársins 2002. Í vetur og vor fjölgaði utanlandsferðunum líka milli ára.

Helmingi minni munur á sumri og vetri

Í maí síðastliðnum voru í boði áætlunarferðir til 43 borga en í vetur hafa áfangastaðirnir verið tæplega þrjátíu á mánuði samkvæmt talningum Túrista. Tíðni ferða á vinsælustu staðina jókst einnig í byrjun sumars og nú nær leiguflug á vegum ferðaskrifstofa hámarki og þannig hefur það ávallt verið. Til dæmis flaug Iceland Express oftast aðeins til tveggja borga yfir veturinn en fjölgaði áfangastöðum á sumrin. En þó framboðið aukist mikið á þessum tíma árs þá dreifast utanlandsferðir Íslendinga núna jafnara yfir árið. Þannig fóru að meðaltali rúmlega þrjátíu og fimm þúsund Íslendingar út á mánuði síðastliðið sumar en yfir hina níu mánuðina var meðaltalið tuttugu og átta þúsund farþegar. Það flugu því tæplega fjórðungi fleiri Íslendingar að jafnaði til útlanda í júní, júlí og ágúst í samanburði við aðra mánuði. Munurinn á þessum tveimur tímabilum var hins vegar mun meiri fyrir áratug. Sumarið 2003 fóru til að mynda að meðaltali rúmlega þrjátíu og tvö þúsund Íslendingar út yfir sumarmánuðina en yfir hina mánuði ársins var meðalfjöldinn 21.650 manns eða helmingi færri.

GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM
NÝJAR GREINAR: ENGIN SAMKEPPNI Í FLUGI TIL KANADA Í KORTUNUMNÚ VERÐUR ÓDÝRARA AÐ DEILA FRÍINU MEÐ FÓLKINU HEIMA