Íslensk vegabréf duga ekki eins víða

Það getur verið seinlegt og kostnaðarsamt að sækja um vegabréfsáritanir. Hér sérðu hversu mörg lönd samþykkja íslenska passa án sérstakrar uppáskriftar.

Þeir sem ferðast með finnsk, sænsk eða bresk skilríki geta komist inn í 173 lönd án þess að sækja um vegabréfsáritanir fyrir komuna. Vegabréf annarra þjóða eru ekki gjaldgeng jafn víða samkvæmt athugun tímaritsins Good. Það munar þó ekki miklu því þeir sem eru með danskan, þýskan, bandarískan eða lúxemborgskan passa komast framhjá á landamæravörðum í 172 löndum áritunarlausir. Belgar, Ítalir og Hollendingar eru einnig sjaldan beðnir um sérstaka pappíra líkt og þegnar flestra landa í vesturhluta Evrópu og N-Ameríku.

Fullt ferðafrelsi til 165 landa

Af þeim löndum sem flogið er beint til frá Keflavík er það aðeins í Rússlandi sem íslenskir túristar þurfa að hafa vegabréfsáritun. Til annarra landa komumst við án sérstaks samþykkis en þó ber að gera boð á undan sér ef ferðinni er heitið til Bandaríkjanna. Samkvæmt talningu Good þá komast handhafar íslenskra vegabréfa inn í 165 lönd án áritunar og kemur það íslenska passanum í sæti númer 25 á lista tímaritsins yfir voldugustu vegabréf heims. Vegabréf hinna Norðurlandanna eru hins vegar samþykkt í fleiri löndum en það íslenska eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan.

Svona mörg lönd samþykkja vegabréf útgefin af eftirfarandi ríkjum:

173 lönd: Svíþjóð, Finnland og Bretland
172 lönd: Danmörk, Þýskaland, Bandaríkin og Lúxemborg
171 land: Belgía, Ítalía og Holland
170 lönd: Kanada, Frakkland, Írland, Japan, Noregur, Portúgal og Spánn
168 lönd: Austurríki, Nýja-Sjáland og Sviss
167 lönd: Ástralía, Grikkland og Singapúr
166 lönd: Suður-Kórea
165 lönd: Ísland

Íbúar Afganistan komast aðeins inn í 28 lönd án áritunar sem er minna en passar útgefnir í öðrum löndum duga til. Vegabréf frá Írak, Sómalíu og Pakistan eru látin duga í litlu fleiri löndum.

Vegabréf er þarfaþing

Það er hægt að komast úr landi passalaus ef ferðinni er heitið til Norðurlandanna eða landa innan Schengen svæðisins. Það er þó alls ekki víst að fólk komist langt án passans því flugfélög geta krafist þess að farþegarnir framvísi vegabréfi sem skilríkjum.

Þegar kormið er á áfangastað getur fólk lent í vanda án passans því þess er krafist að þeir sem ferðast á Schengen svæðinu hafi gild persónuskilríki meðferðis. Samkvæmt vef utanríkisráðuneytisins eru engin önnur raunveruleg persónuskilríki gefin út hér á landi og ráðuneytið segir því mikilvægt að íslenskir ferðamenn hafi ávallt vegabréf sitt meðferðis.