Íslendingar þriðjungur farþega Vueling

Eitt stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu hóf flug til Keflavíkur síðasta sumar og bætti við ferðum í ár. Talskona félagsins segir undirtektirnar góðar og hlutfall íslenskra farþega er hátt.

Barcelona er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en þrátt fyrir það hefur framboð á beinu flugi til spænsku borgarinnar frá Keflavík einskorðast við sumartímann. Í haust munu hins vegar WOW air og spænska lággjaldaflugfélagið Vueling bjóða upp á áætlunarflug þangað tvisvar til þrisvar í viku.

Þetta er annað árið í röð sem Vueling flýgur til Íslands og segir Tania Galesi Villa, talskona félagsins, að sala á sætum á þessari flugleið hafi aukist frá sama tíma í fyrra. Ástæðan sé líklega sú að fleiri viti nú af þessum möguleika og eins hjálpi það til að félagið hefur lengt ferðatímann töluvert frá vori og fram á haustið í stað þess að fljúga aðeins yfir sumarmánuðina. Vikulegum ferðum var jafnframt fjölgað úr tveimur í þrjár. Samkvæmt talningu Túrista býður Vueling upp á um sautján þúsund sæti í flugi sínu milli Barcelona og Keflavíkur í ár.

Margir Íslendingar um borð

Líkt og Túristi greindi frá nýverið þá er hlutfall íslenskra farþega hjá hinu breska easyJet aðeins 11 prósent en félagið er langumsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi. Hjá Vueling er hins vegar ríflega þriðja hvert sæti í Íslandsfluginu skipað farþegum sem hófu ferðalagi í Keflavík að sögn Tania Galesi Villa. Hún segir hins vegar of snemmt að segja til um hvort flug félagsins til Íslands verði í boði allt árið um kring í nánustu framtíð. Vueling er fjórða stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu og flutti félagið ríflega sautján milljónir farþega á síðasta ári.

Auk áætlunarflugs Icelandair, WOW air og Vueling til Barcelona þá er hægt að fljúga héðan til Madrídar með Icelandair og Primera Air og WOW air bjóða upp á reglulegar ferðir til Alicante frá vori og fram á haust.

GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM
NÝJAR GREINAR: ENGIN SAMKEPPNI Í FLUGI TIL KANADA Í KORTUNUMNÚ VERÐUR ÓDÝRARA AÐ DEILA FRÍINU MEÐ FÓLKINU HEIMA