Leigan hér á landi sker sig úr

Ennþá er miklu dýrara að leigja bíl hér á landi yfir sumarmánuðina en víða annars staðar í Evrópu. Á meginlandinu hefur leigan lækkað í mörgum tilfellum.

Fyrir mánuði síðan kannaði Túristi verð á bílaleigubílum við sextán evrópskar flughafnir í júní, júlí og ágúst. Niðurstaðan var sú að meðalverðið var langhæst á Keflavíkurflugvelli og var það til að mynda um þrefalt hærra en í Kaupmannahöfn og London. Í dag könnuðum við á ný hvernig verðskrár evrópskra bílaleiga hafa þróast síðastliðinn mánuð og þá kemur í ljós að meðalverðið, fyrir júlí og ágúst, hefur staðið í stað hér á landi en lækkað á ellefu flugvöllum. Aðeins í Stokkhólmi hefur verðið hækkað sem nokkru nemur eins og sjá má hér fyrir neðan.

Meðalleiguverð á dag í júlí og ágúst.

Tíu þúsund króna daggjald

Núna kostar að meðaltali 10.442 krónur á dag að taka bíl á leigu við Keflavíkurflugvöll og skila honum tveimur vikum síðar. Meðal daggjaldið þessa tvo mánuði var 10.440 krónur í könnunni sem var gerð í byrjun sumars. Líkt og þá er Osló næstdýrasti staðurinn en þar hefur meðalverðið í júlí og ágúst lækkað um þúsund krónur og er 7.595 krónur. Leigan hér á landi er því um fjórðundi hærri en hún er við flugvöllinn í Gardermoen. Almennt hafa leiguverð lækkað eins og sést þegar bornar eru saman bláu og rauðu súlurnar hér fyrir ofan. Sú bláa sýnir meðalverðið í júlí og ágúst eins og það var fyrir mánuði síðan en rauða súlan sýnir verðið eins og það er í dag.

Á næstu síðu má sjá hvernig verðin hafa þróast milli mánaða á hverjum flugvelli fyrir sig.

Við könnunina var notuð leitarvél Rentalcars.com, sem er eitt umsvifamesta fyrirtæki heims á þessu sviði og gerir verðsamanburð á mörgum þekktustu bílaleigum í heimi. Rentalcars.com knýr einnig áfram bílaleigusíðu Túrista. Borin voru saman verð á bílum í minnsta stærðarflokki.

ÆTLARÐU AÐ LEIGJA BÍL Á NÆSTUNNI? GERÐU VERÐSAMANBURÐ HÉR.