Segjast ekki vera á leiðinni norður

airberlin 860

Í síðustu viku sögðu forsvarsmenn ferðaþjónustunnar á Norðurlandi að viðræður ættu sér stað við lággjaldaflugfélög um áætlunarferðir til Akureyrar. Forsvarsmenn nokkurra evrópskra flugfélaga segjast ekki vera að kanna flug þangað.  

 

Í síðustu viku sögðu forsvarsmenn ferðaþjónustunnar á Norðurlandi að viðræður ættu sér stað við lággjaldaflugfélög um áætlunarferðir til Akureyrar. Forsvarsmenn nokkurra evrópskra flugfélaga segjast ekki vera að kanna flug þangað.

Millilandaflug frá Akureyri takmarkast við reglulegar ferðir til Grænlands og nokkur leiguflug á ári á vegum ferðaskrifstofa. Í síðustu viku var haft eftir Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, í Vikudegi að easyJet og Norwegian væru meðal þeirra flugfélaga sem hafi sýnt flugi til Akureyrar áhuga og einnig væri flugvöllurinn inn í myndinni hjá þýskum lággjaldaflugfélögum.

Anna Knowles, talskona easyJet, segir við Túrista að engin áform séu uppi um að hefja flug til Akureyrar á þessari stundu og upplýsingafulltrúi Norwegian segist ekki hafa neinar upplýsingar um flug þangað. Talsmenn þýsku félaganna Airberlin og German Wings taka í svipaðan streng í sínum svörum.

Bergþór Erlingsson hjá Flugklasanum 66N segir í svari til Túrista að Markaðsstofa Norðurlands og Isavia hafi fundað með Norwegian og easyJet um flug til Akureyrar.

Var til skoðunar hjá Ryanair

Líkt og Túristi greindi frá í fyrra þá könnuðu forsvarsmenn Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, flug norður en erfitt aðflug á Akureyrarflugvelli varð hins vegar til þess að sá kostur var ekki talinn álitlegur hjá stjórnendum Ryanair.