Mun fleiri panta sæti hjá easyJet en WOW

Þeir sem fljúga með lágfargjaldaflugfélögum þurfa að borga aukalega fyrir að taka frá ákveðið sæti. Hlutfall farþega sem nýtir sér þessa þjónustu er mjög ólíkt milli félaga

Þeir sem fljúga með lágfargjaldaflugfélögum þurfa að borga aukalega fyrir að taka frá ákveðið sæti. Hlutfall farþega sem nýtir sér þessa þjónustu er mjög ólíkt milli félaga.

Þú borgar að lágmarki um sex hundrað krónur fyrir að velja sérstakt sæti um borð í vélum easyJet og WOW air. Dýrustu sætin kosta 1.995 krónur hjá því íslenska en ríflega þrjú þúsund hjá breska félaginu. Fjögurra manna fjölskylda sem bókar ódýrustu sætin, fram og tilbaka, borgar því nærri fimm þúsund krónur aukalega. Þeir sem vilja ekki eiga það á hættu að fá ekki sæti við hliðina á förunautunum komast því varla hjá því að borga þetta aukagjald.

Íslendingar að læra á lággjaldaflugfélögin

Það er þó langur vegur á milli þess hve algengt það er að farþegar þessara tveggja félaga nýti sér þessa aukaþjónustu samkvæmt athugun Túrista síðustu tvær vikur. Hjá easyJet hafa til að mynda um 85 prósent sætanna verið frátekin daginn fyrir brottför frá Keflavík en hjá WOW hefur hlutfallið verið 13 prósent. Munurinn er því mikill og aðspurð um hvort Íslendingar taki síður frá sæti en aðrir farþegar segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, að um 15 til 20 prósent sæta séu almennt bókuð og hlutfallið fari vaxandi. „Íslendingar eru hægt og rólega að læra að ferðast með lággjaldaflugfélögum“, bætir hún við.

Komast fjölskyldur hjá aukagjaldinu?

Þrátt fyrir að ríflega átta af hverjum tíu sætum séu almennt tekin frá hjá easyJet segir Anna Knowles, talskona félagsins, að bókunarkerfi flugfélagsins sjái til þess að hópar og fjölskyldur fái sæti hlið við hlið í 99 prósentum tilvika. Samkvæmt því ættu þeir sem vilja spara sér sætisgjald easyJet en þó vera öruggir um sæti við hlið barnanna sinna ekki að þurfa að taka frá sæti. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir hins vegar að það sé öruggura fyrir fjölskyldur sem ferðast með WOW air að taka frá sæti fyrir brottför til að tryggja sér pláss hlið við hlið. Hún segir þó að farþegar geti við innritun í flug óskað eftir því að sitja saman og er þá eftir fremsta megni reynt að verða við þeirri ósk en það sé samt aldrei öruggt.

Tólf af þeim flugfélögum sem fljúga til Íslands um þessar mundir rukka sérstaklega fyrir sætisval samkvæmt úttekt Túrista.