Holtið í Vancouver

Hótelið fyrir þá sem vilja búa á tímalausum stað í göngufæri við það flesta í Vancouver.

Fyrir framan hóteldyrnar stendur prúðbúinn dyravörður og í anddyrinu eru íburðamiklar mubblur, málverk á veggum og persískar mottur á gólfum. Hér er naumhyggjunni ekki fyrir að fara í aðbúnaði né þjónustu. Starfsfólkið kann sitt fag og það skín í gegn að þetta fjölskylduhótel er ljómandi vinnustaður. Staðsetning í miðborgin gerir það að verkum að vellaunaðir farandverkamenn dvelja hér í miðri viku og Sean Connery bjó á svítunni í nokkra mánuði á meðan hann tók upp bíómynd í borginni.

Á Wedgewood hótelinu getur hinn hefðbundni ferðamaður líka fundið herbergi á viðráðanlegu verði. En þó aðallega utan aðalferðamannatímans en Icelandair flýgur beint til borgarinnar langt fram á haustið.

Wedgewood Hotel, er líkt Hótel Holt, hluti að Relais&Châteaux en innan samtakanna eru aðeins fínni gististaðir í einkaeigu en ekki keðjuhótel.

Herbergin

Líkt og í lobbínu eru herbergin innréttuð með antík húsgögnum, flúruðu veggfóðri og marmara á baðherberginu. Rúmín eru stór og afskaplega þægileg og hér eru því kjöraðstæður til að sofa úr sér flugþreytuna.

Staðsetning

Það er varla hægt að vera meira miðsvæðis en hér við Robson Square og þeir sem ætla að gera stórverslunum skil í ferðinni þurfa aðeins að labba niður á horn til að hefja búðaröltið. Það er líka örstutt í skemmtileg hverfi eins og Yaletown og það tekur aðeins tíu mínútur að rölta niður að kajanum þaðan sem ferjurnar sigla yfir á Granville Island, einn vinsælasta áningastað ferðamanna í borginni.

Maturinn

Það eru ekki bara hótelgestir sem venja komur sínar á Wedgewood því veitingastaður hússins, Bacchus, og barinn lokka einnig marga til sín. Þeir sem vilja fá sér klassíska máltíð eða bara hanastél ættu því að líta við. Morgunverðarmatseðill húsins er ljómandi.

Verðið

Hótel í þessum klassa kosta sitt en í Vancouver, líkt og svo mörgum öðrum borgum, þá hægist á umferð ferðamanna á ákveðnum tímum ársins. Þeir sem kjósa til dæmis að gera borginni skil í byrjun hausts geta þannig fengið herbergi á helmingi lægra verði en þeir sem þangað koma yfir sumarið. Það er þó ólíklegt að nóttin kosti minna en tæpar 30 þúsund krónur. Hér má reglulega finna tilboð á gistingu á Wedgewood Hotel and Spa. En eins og nafnið gefur til kynna má einnig fara í gufubað og fá nudd á hótelinu.

Sjá heimasíðu Wedgewood hér.