Icelandair heldur sínu þrátt fyrir fjölgun flugfélaga

Tvöfalt fleiri erlend flugfélög stunda nú Íslandsflug yfir sumarið en fyrir þremur árum síðan. Þrátt fyrir aukninguna þá heldur Icelandair stöðu sinni yfir aðalferðamánuðinn á meðan vegur næststærsta flugfélagsins hefur dregist saman. MEIRA

 

 

Tvöfalt fleiri erlend flugfélög stunda nú Íslandsflug yfir sumarið en fyrir þremur árum síðan. Þrátt fyrir aukninguna þá heldur Icelandair stöðu sinni yfir aðalferðamánuðinn á meðan vegur næststærsta flugfélagsins hefur dregist saman.

Í síðasta mánuði buðu sautján erlend flugfélög upp á áætlunarferðir frá Keflavík en þau voru aðeins níu á sama tímabili árið 2011. Júli er ávallt annasamasti mánuðurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og farþegafjöldinn nær þá hámarki. Engar opinberar tölur eru til um hvernig hópurinn skiptist niður á flugfélögin.

Metin falla í júlí

Icelandair birtir mánaðarlega tölur um hversu margir ferðast með félaginu en þar sem WOW air, og þar á undan Iceland Express, birtir sjaldan sínar tölur hefur ekki verið hægt að sjá hvernig hlutdeild erlendu félaganna í farþegafjöldanum hefur breyst yfir hásumarið.

Fyrr í þessum mánuði sögðu hins vegar forsvarsmenn WOW air frá því að í júlí síðastliðnum hefðu um 73 þúsund farþegar flogið með félaginu og það væri nýtt met. Túristi hefur beðið um tölur frá WOW air fyrir júlí í fyrra en ekki fengið. Iceland Express setti einnig met í fjölda farþega í júlí árið 2011 þegar það flutti 95 þúsund farþega samkvæmt frétt Mbl.is. Núna eru því til tölur yfir heildarfarþegafjölda íslensku félaganna þessa tvo júlímánuði og þar af leiðandi er hægt að sjá hvernig markaðurinn hefur þróast hvað varðar skiptingu farþega milli íslenskra og erlendra flugfélaga yfir hásumarið.

Næststærsta félagið missir hlutdeild

Icelandair flutti um 355 þúsund farþega í síðasta mánuði eða 64 prósent allra farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í júlí árið 2011 var hlutdeild félagsins 62 prósent. Vægi Icelandair er því nánast óbreytt þrátt fyrir að nú fari nærri þriðjungi fleiri um flugvöllinn en fyrir þremur árum síðan. Þegar Iceland Express setti sitt farþegamet í júlí 2011 voru 24 prósent farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á vegum fyrirtækisins. Í síðasta mánuði voru hins vegar rúmlega 13 prósent farþeganna í Keflavík á leið í eða úr vélum WOW air. Hlutdeild WOW air í metmánuðinum er því nærri helmingi lægri en hlutdeild Iceland Express var þegar félagið setti sitt met fyrir þremur árum. Iceland Express og WOW air hafa verið næststærsti aðilinn í millilandaflugi á eftir Icelandair og af þessum tölum að dæma þá hefur staða þess aðila versnað mjög með tilkomu fleiri erlendra flugfélaga. En eins og áður segir þá hefur ferðunum um Keflavíkurflugvöll í júlímánuði fjölgað um þriðjung á þessum þremur árum og markaðurinn er því mun stærri.

Ögn fleiri farþegar í hverri ferð

Iceland Express flaug til N-Ameríku sumarið 2011 og samkvæmt talningu Túrista fór félagið 130 fleiri ferðir til og frá landinu í júlí það ár en WOW air gerði í síðasta mánuði. Miðað við uppgefinn farþegafjölda frá félögunum þá hafa að jafnaði 156 farþegar setið í vélum Iceland Express þegar félagið setti farþegamet en meðaltalið hjá WOW air hefur verið 152 farþegar í hverri ferð samkvæmt útreikningum síðunnar.

Ferðafjöldinn segir sína sögu

Túristi tekur mánaðarlega saman upplýsingar um umsvifamestu flugfélögin í Keflavík í brottförum talið. Í síðasta mánuði stóð Icelandair fyrir 64,6 prósent brottfara og WOW air 13,8 prósent. Þær tölur eru nærri því nákvæmlega þær sömu og komu fram hér að ofan um hlutdeild flugfélaganna tveggja í farþegafjöldanum í síðasta mánuði. Fjöldi ferða gefur þar af leiðandi skýra mynd af því hvernig farþegar dreifast á milli flugfélaga. En líkt og kom fram í mánaðarlegum talningum Túrista í vetur þá hefur Icelandair nú minna vægi en áður á þeim árstíma.

TENGDAR GREINAR: Áfangastaðir vetrarinsMetmánuður hjá íslensku félögunum

Sérvalin hótel í ódýrari kantinum og í milliverðflokki á vegum Tablet Hotels:

París: MayetThe FiveHotel Thérése London: The RockwellThe Mandeville
Kaupmannahöfn: TwentySevenAlexandra New York: AceSmyth
Barcelona: MarketGranados83 Berlín: KuDamm101Sir F.K. Savigny