Naktir Ítalir gengu fram af íbúunum

Í Barcelona eru borgarbúar orðnir langþreyttir á drukknum og hálfberum ferðamönnum. Í síðustu viku sauð upp úr þegar þrír naktir Ítalir gengu um göturnar og fífluðust í heimamönnum. MEIRA

 

 

Í Barcelona eru borgarbúar orðnir langþreyttir á drukknum og hálfberum ferðamönnum. Í síðustu viku sauð upp úr þegar þrír naktir Ítalir gengu um göturnar og fífluðust í heimamönnum.

Nálægðin við vinsælustu baðstrendur Barcelona er eitt helsta aðdráttarafl La Barceloneta hverfisins og þar halda margir ferðalangar til. Íbúarnir hafa hins vegar fyrir löngu fengið nóg af því að fólk gangi um göturnar í baðfötum og fyrir nokkrum árum var hrundið af stað átaki í að fá gesti borgarinnar til að virða þær óskrifuðu reglur sem þar gilda um klæðaburð. Barcelonabúar fara til að mynda ekki í sundfötum í strætó eða berir að ofan á veitingahús líkt og sumir ferðamenn telja vera í lagi.

Stanslaus partí í íbúðahúsnæði

Drykkjulæti ferðamanna fara einnig í taugarnar á íbúunum og í síðustu viku tóku hundruðir íbúa þátt í kröfugöngu þar sem skorað var á yfirvöld að skera upp herör gegn fullum ferðalöngum. Mynd sem náðist af þremur allsberum Ítölum á götum La Barceloneta hafði þá farið eins og eldur um sinu á netinu og í kjölfarið sauð upp úr. Samkvæmt frétt Guardian eru íbúarnir óánægðir með að í hverfið streymi farþegar lágfargjaldaflugfélaga sem leigi sér ódýrar íbúðir og haldi þar stanslaus partí. Einn viðmælenda blaðsins segir að þessi tegund ferðamann fæli aðra túrista frá hverfinu.

Leigusalarnir fengu að heyra það

Reiði íbúanna beinist þó ekki aðeins að óstýrilátum ferðamönnum heldur einnig þeim sem leigja þeim íbúðirnar sínar. Í La Barceloneta eru til að mynda aðeins 72 samþykktar orlofsíbúðir en í frétt Guardian segir að á Airbnb séu í boði um sex hundruð íbúðir í hverfinu. Mótmælendur leituðu uppi nokkra af þessum leigusölum og kröfðust þess að þeir hættu þessari ólöglegu starfsemi.

Borgaryfirvöld hafa lofað því að funda með íbúum hverfisins í næsta mánuði og hafa aukið löggæslu á svæðinu.

VEGVÍSIR FYRIR BARCELONA