Metmánuður hjá íslensku flugfélögunum

Farþegafjöldinn hjá Icelandair og WOW air náði nýjum hæðum í síðasta mánuði. MEIRA

 

 

Farþegafjöldinn hjá Icelandair og WOW air náði nýjum hæðum í síðasta mánuði.

Það flugu 355.046 farþegar með Icelandair í júlí og með WOW air fóru 72.573 farþegar. Farþegafjöldinn er sá mesti í einum mánuði hjá báðum félögum samkvæmt tilkynningum en bæði félög hafa fjölgað ferðum sínum frá því í júlí í fyrra. Icelandair um nærri fimmtung en WOW air um 7 prósent samkvæmt útreikningum Túrista. Félögin tvö stóðu fyrir nærri átta af hverjum tíu ferðum frá Keflavík í júlí.

Mikil aukning á árinu

Nýliðinn júlí er þó ekki eini mánuðurinn sem stenst samanburð við sama tíma í fyrra því það sem af er ári hefur farþegum Icelandair fjölgað um fimmtán prósent og hjá WOW air hefur farþegum fjölgað úr 215.000 í 300.000 eða um tæplega fjörtíu af hundraði (í tilkynningu WOW air kom fram að aukningin væri um 30% en miðað við þessar tölur eru hún 39,5%). Það er álíka viðbót og hefur orðið í fjölda ferða á vegum WOW air það sem af er ári.

Rangar tölur í fyrra

Eins og áður segir kom fram í nýrri tilkynningu WOW air að farþegar á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs hafi verið 215 þúsund. Í frétt Mbl.is frá 29. ágúst í fyrra segir „… hefur WOW air flutt yfir 236 þúsund gesti það sem af er ár­inu.“ Það þýðir að farþegar WOW air í ágúst 2013 hafi verið ríflega 21 þúsund sem er mun lægri farþegatala hjá félaginu en búast mætti við yfir aðalferðamannatímann. Þegar Túristi leitaði skýringa á þessari lágu tölu fengust þau svör hjá WOW air að í frétt Mbl í fyrra hefðu verið „rangfærslur“. Hið rétta sé að farþegar fyrstu átta mánuðina árið 2013 hafi verið samtals 283.582 og í ágúst hafi þeir verið 68.706.

Viðbót kl. 11:11: Í fréttatilkynningu sem upplýsingafulltrúi WOW air sendi frá sér 29.ágúst í fyrra, og Túristi hefur nú undir höndum, segir: „…hefur WOW air flutt yfir 236 þúsund gesti það sem af er árinu.“ Það er sami texti og Mbl notaði í sinni frétt. Frétt Mbl hefur því ekki verið byggð á rangfærslum, líkt og upplýsingafulltrúi WOW air hélt fram í svari til Túrista fyrr í dag, heldur röngum upplýsingum frá flugfélaginu.

HÓTEL: Berðu saman verð á ódýrum hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Bókaðu bílaleigubíl fyrir sumarfríið