Tveimur stjórnendum WOW air sagt upp

Eftir nokkra mánuði í starfi var tveimum starfsmönnum í framkvæmdastjórn WOW air sagt upp störfum í gær.

Tómasi Ingasyni og Arnari Má Arnþórssyni, framkvæmdastjórum hjá WOW air, var sagt upp störfum í gær. Það staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins. Hún segir að þessar breytingar séu liður í því að fylgja lággjaldastefnunni eftir enn frekar og standa við loforðið um að bjóða ávallt lægstu fargjöldin.

Tómas var forstöðumaður viðskiptaþróunarsviðs WOW air og hóf störf í byrjun árs. Arnar Már tók við starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs í maí sl. Aðspurð um hvort dræm sala sé ástæða uppsagnanna segir Svanhvít að sett hafi verið met í sumar og útlit sé fyrir mjög gott haust og vetur.

Bæði Arnar og Tómas hafa langa reynslu frá Icelandair en höfðu horfið til annarra starfa áður en þeir tóku við framkvæmdastjórastöðunum hjá WOW air.

Í frétt Vísis í vor kom fram að fimm lykilstjórnendur WOW air hefðu hætt störfum frá því að félagið hóf áætlunarflug sumarið 2012.