Barcelona

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel
  • Bílaleiga

Almennt

Þrátt fyrir að vera ein af stórborgum álfunnar er stemmningin í Barcelona mjög afslöppuð. Borgin er líka ákaflega fögur og götumyndin víðast hvar aldagömul. Nálægðin við hvítar strendur gerir það líka að verkum að ferð til Barcelona getur sameinað borgar- og sólarferð.

Borgin er þekkt fyrir að vera heimavöllur skapandi fólks og hún ber þess svo sannarlega merki. Byggingar Gaudí eiga sér enga hliðstæðu, listasöfnin hafa að geyma óteljandi dýrgripi og á veitingastöðunum er borinn fram matur sem er töfrum líkastur, nær allan sólarhringinn. Hverfi borgarinnar hafa hvert sín sérkenni og gaman að rölta um eða hjóla til að upplifa þessa fjölbreytni sem borgin hefur upp á að bjóða. Hvar sem maður er niðurkominn í borginni þá getur maður verið viss um að það er góður matur í seilingarfjarlægð.

Sjá og gera

Las Ramblas – Ramblan er engin venjuleg verslunargata. Hér er eiga vissulega mörg heimsþekkt vörumerki heimili sitt í Barcelona en þau hverfa eiginlega í skuggann af metnaðarfullum götulistamönnum og matarbásunum þar sem hægt er að kaupa sér spræka kjúklinga og kanínur í soðið. Þegar ofar dregur verður gatan öllu hefðbundnari. Vasaþjófar gera fólki oft lífið leitt í Barcelona og þeir eru sérstaklega varasamir á þessu svæði. Metróstöðin Catalunya el. Liceu liggur næst Römblunni.

Ströndin – Það er ótvíræður kostur við Barcelona sem ferðamannastað að finna má brúklegar baðstrendur í nágrenni við miðborgina. Það er því vissara að pakka strandfötunum niður ef vera skyldi að ströndin heillaði meira en ys og þys stórborgarinnar. Fjöldi veitinga og skemmtistaða er við strandlengjuna sem er hátt í sex kílómetrar að lengd. Metróstöðin Ciutadella-Villa Olímpica liggur vel við ströndina.

Antoni Gaudí – Verk arkitektsins Antoni Gaudí eru eitt af sérkennum Barcelona. Dómkirkjan, La Sagrada Familia, er þeirra þekktust en hún hefur verið í byggingu frá árinu 1882 og framkvæmdir eru í fullum gangi enn þann dag í dag. Áætlað er að verkinu ljúki á hundrað ára dánarafmæli Gaudí, 2026. Það má auðveldlega og að kostnaðarlausu virða fyrir sér kirkjuna frá öllum hliðum. Þeir sem vilja komast nær og inn verða að greiða aðgangseyri (11 evrur). Það er opið frá 9-20 yfir sumarmánuðina en til kl. 18 á veturna. Aðrar þekktar byggingar Gaudí eru Casa Battló, Casa Milá og garðurinn Park Güell.
Sjá á korti

Söfn

Nýlistasafnið, Macba er staðsett í El Raval. Safnið hefur reynst mikil lyftistöng fyrir hverfið og í dag eru fjölmargir veitingastaðir og verslanir þar í kring. Það kostar 7,5 evrur inn á safnið fyrir eldri en 14 ára. Safnið er opið á ýmsum tímum og má sjá nánar á heimasíðu safnsins.

Listmálarinn Pablo Picasso bjó á sínum yngri árum í Barcelona. Á Picasso safninu, í El Born hverfinu, er að geyma á fjórða þúsund verk frá upphafsárum listamannsins. Það er frír aðgangur að safninu eftir kl 15 á sunnudögum og fyrsta sunnudag hvers mánaðar en kostar annars 9 evrur fyrir 16 ára og eldri.

Safn Joan Míro er vinsæll áfangastaður ferðamanna þó það sé ekki í alfaraleið. Á safninu eru til sýnis verk frá löngum ferli listamannsins en einnig sérsýningar á verkum eftir aðra listamenn. Aðgangseyrir er 8 evrur.
Sjá á korti

Camp Nou – Þeir sem vilja kynna sér sögu knattspyrnuliðs Barcelona geta keypt sig inn á heimavöll liðsins, Camp Nou. Þar er hægt að skoða safn helgað liðinu og berja innviði leikvallarins augum.
Sjá á korti

Matur og drykkur

Pinotxo – Þessi litli bás á La Boqueria matarmarkaðinum er sennilega þekktasti tapasstaður borgarinnar. Markaðurinn liggur við Las Ramblas og básinn sem Pinotxo er við er sá vinsælasti á markaðnum. Hér er því þröngt á þingi og fólk stendur við barborðið og gæðir sér á gómsætum réttum.

Sjá á korti

El Vaso de Oro, Balboa 6 – Mjög vinsæll staður í rólegri götu í La Barceloneta hverfinu. Gamaldags innréttingar og hefðbundnir réttir. Hér standa gestirnir við borðin eða tylla sér á barstóla við barinn og þjónarnir eru eldsnöggir að koma með pantanir. Opið frá morgni til miðnættis alla daga en lokað í september.

Sjá á korti

El Xampanyet, Carrer de Montcada 22 – Lítill staður í námunda við Picasso safnið í El Born hverfinu. Hér eru nokkur borð innandyra en svo er líka pláss við barinn. Ansjósurnar eru helsta stolt staðarins og við hæfi að skola þeim niður með kampavíni en staðurinn dregur nafn sitt af þeim drykk.

Sjá á korti

Varela Gago, Paseo Del Born 25 –  Hér er hægt að borða utandyra langt fram á kvöld. Á boðstólnum er afbragðs saltfiskur og Patatas Bravas, djúpsteiktar kartöflur í chilli majones sósu. Það eru margir aðrir veitingastaðir í námunda við þennan og því auðvelt að finna eitthvað annað ef engin sæti eru að fá á Varela Gago.

Sjá á korti

Bo, Placa de Rius i Taulet 11, Gracia – Bo er einn af mörgum stöðum við þetta torg í Gracia og því ætti ekki að vera löng bið eftir borði. Fleiri staðir eru við Placa del Sol sem er í nokkra mínútna göngufæri.

Sjá á korti

Txapella, Passeig de Gràcia 8-10, Eixample – Þessi er ódýr og vel staðsettur. Þeir sem eru þreyttir í fótum ættu að velja þennan stað enda er hægt að setjast niður og njóta réttana sem lagaðir eru samkvæmt baskneskum hefðum. Sangria staðarins hefur stytt mörgum matargestinum biðina eftir matnum. Opið alla daga frá morgni og fram yfir miðnætti.

Sjá á korti

 

Samlokur og sætabrauð

Bocadillos eru heiti yfir samlokur sem Barcelonabúar grípa oft í og ekki óalgengt að sjá fólk borða þær á hlaupum. Þetta eru einfaldar samlokur úr baguette brauði. Sætabrauðið í borginni er líka ansi gott og um að gera að hafa augun opin fyrir svoleiðis millimáltíð.

Conesa, Llibreteria 1 – Hefðbundnar Bocadillos en eru sagðar með þeim allra bestu í Barcelona. Kosta að meðaltali 6 evrur.

Sjá á korti

Barcelona – Reykjavik, C/Doctor dou 12 í El Raval og C/ Asturies 20 í Gracia –  Eiins og nafnið gefur til kynna hefur þetta gæðabakarí í El Raval eitthvað með Ísland að gera. Eigendurnir eru íslenskir og hafa fengið góðar viðtökur í Barcelona. Það væri óskandi að þeir opnuðu útibú í Reykjavík þó varla sé kostur á eins flottu húsnæði fyrir starfssemina eins og það sem hýsir þau á Spáni. Það er tilvalið að kíkja við og kaupa brauð eða sætabrauð til að narta í úti í sólinni. Ekki spillir fyrir að brauðin eru mettandi og hollustan í fyrirrúmi.

HeimasíðaSjá á korti

Mistral, Ronda Sant Antoni 96 í El Raval – Hér hefur verið bakað brauð síðan 1879 og heimamenn eru svo sólgnir í það að afgreiðslufólkið hefur varla undan. Það er því vissara að hafa pöntunina klára þegar röðin kemur að manni til að slá ekki önnum kafið starfsfólkið út af laginu. Litlu súkkulaði croissantarnir sem seldir eru eftir vigt eru sennilega eitthvað það syndsamlegast sætabrauð sem hægt er að komast með puttana í.

Sjá á korti

Veitingastaðir

Kaiku, Placa del Mar 1 í Barceloneta – Ef maður pantar borð tímanlega eða ef heppnin er með manni fær maður sæti úti á verönd þar sem hægt er að virða fyrir sér sjávarsíðu Barcelona á meðan snætt er. Hér er boðið upp á ferskt hráefni af markaðnum sem eldað er samkvæmt hefðum Miðjarðarhafseldhússins. Hádegismatseðillinn á 10 evrur.

Sjá á korti

Les Quinze Nits, Placa Reial 6 í El Born – Katalónsk matargerð, hröð þjónusta og frekar lágt verð. Hádegismatseðillinn kostar undir 10 evrum og meðalverð fyrir aðalrétt á kvöldin er um 20 evrur.

Sjá á korti

El Ponsa,  Enric Granados 89 í Gracia – Heimilisleg matargerð og afslöppuð stemming á þessum hverfisveitingastað í L´Eixample. Þetta er því staðurinn fyrir þá sem vilja fá góðan mat og frambærileg vín án þess að þurfa að klæða sig upp eða borga of mikið. Meðalverð fyrir kvöldverð eru 18 evrur en hádegismatseðillinn kostar 12 evrur.

Sjá á korti

Can Punyetes – Lítil katalónsk veitingahúsakeðja þar sem grillmatur er í hávegum hafður. Í Barcelona er að finna þrjá staði og njótta þeir mikilla vinsælda enda boðið upp á góðan mat á góðu verði.

Sjá alla þrjá staðina á korti Ciutat de Balaguer 50, Maria Cubi 189 og Francesc Giner 8-10

Gagnlegt

Fyrir börn

Þótt það geti vissulega orðið ansi heitt í Barcelona yfir hásumarið er borgin þægilegur áfangastaður fyrir barnafjölskyldur. Þar er töluvert um græn svæði eins og t.d. Parc de la Ciutadella. Þar er að finna stóran leikvöll fyrir yngstu börnin, dýragarð og hjóla- og bátaleigu. Garðurinn er rétt við El Born hverfið.
Sjá á korti

Hér eru tvær heimasíður sem hafa að geyma ítarlegar upplýsingar fyrir fjölskyldur með börn sem langar að sækja Barcelona heim. Sjá hér og hér.

Samgöngur

Flugvallarrútan (Aerobús) er þægilegasti fararmátinn frá El Prat flugvelli. Rútan keyrir á fimm mínútna fresti og er rúman hálftíma á leiðinni. Þeir sem kaupa farmiða báðar leiðir greiða 8,75 evrur (1.345 kr). Farið með strætó númer 46 frá flugvellinum er mun ódýrara (1,35 evrur) en þar fer ekki eins vel um farþegana og farangurinn. Miðinn í lestina kostar 2,8 evrur en hún keyrir óreglulega og því erfitt að stóla á hana.

Metrókerfi borgarinnar er gott og um að gera að nýta sér það í stað.

Hótel

Hér geturðu gert verðsamanburð á gistingu í Barcelona og bókað besta kostinn:

Bílaleiga

Ef þú ætlar að ferðast um Spán og leigja bíl í Barcelona þá geturðu gert verðsamanburð á bílaleigum borgarinnar hér. Leitarvélin gerir þér kleift að finna bíla eftir staðsetningum og ef þú ætlar að taka bílinn á flugvellinum þá geturðu valið um leigur sem eru með afgreiðslu í flugstöðinni sjálfri eða fyrir utan.