Pinotxo – Þessi litli bás á La Boqueria matarmarkaðinum er sennilega þekktasti tapasstaður borgarinnar. Markaðurinn liggur við Las Ramblas og básinn sem Pinotxo er við er sá vinsælasti á markaðnum. Hér er því þröngt á þingi og fólk stendur við barborðið og gæðir sér á gómsætum réttum.
Sjá á korti
El Vaso de Oro, Balboa 6 – Mjög vinsæll staður í rólegri götu í La Barceloneta hverfinu. Gamaldags innréttingar og hefðbundnir réttir. Hér standa gestirnir við borðin eða tylla sér á barstóla við barinn og þjónarnir eru eldsnöggir að koma með pantanir. Opið frá morgni til miðnættis alla daga en lokað í september.
Sjá á korti
El Xampanyet, Carrer de Montcada 22 – Lítill staður í námunda við Picasso safnið í El Born hverfinu. Hér eru nokkur borð innandyra en svo er líka pláss við barinn. Ansjósurnar eru helsta stolt staðarins og við hæfi að skola þeim niður með kampavíni en staðurinn dregur nafn sitt af þeim drykk.
Sjá á korti
Varela Gago, Paseo Del Born 25 – Hér er hægt að borða utandyra langt fram á kvöld. Á boðstólnum er afbragðs saltfiskur og Patatas Bravas, djúpsteiktar kartöflur í chilli majones sósu. Það eru margir aðrir veitingastaðir í námunda við þennan og því auðvelt að finna eitthvað annað ef engin sæti eru að fá á Varela Gago.
Sjá á korti
Bo, Placa de Rius i Taulet 11, Gracia – Bo er einn af mörgum stöðum við þetta torg í Gracia og því ætti ekki að vera löng bið eftir borði. Fleiri staðir eru við Placa del Sol sem er í nokkra mínútna göngufæri.
Sjá á korti
Txapella, Passeig de Gràcia 8-10, Eixample – Þessi er ódýr og vel staðsettur. Þeir sem eru þreyttir í fótum ættu að velja þennan stað enda er hægt að setjast niður og njóta réttana sem lagaðir eru samkvæmt baskneskum hefðum. Sangria staðarins hefur stytt mörgum matargestinum biðina eftir matnum. Opið alla daga frá morgni og fram yfir miðnætti.
Sjá á korti
Samlokur og sætabrauð
Bocadillos eru heiti yfir samlokur sem Barcelonabúar grípa oft í og ekki óalgengt að sjá fólk borða þær á hlaupum. Þetta eru einfaldar samlokur úr baguette brauði. Sætabrauðið í borginni er líka ansi gott og um að gera að hafa augun opin fyrir svoleiðis millimáltíð.
Conesa, Llibreteria 1 – Hefðbundnar Bocadillos en eru sagðar með þeim allra bestu í Barcelona. Kosta að meðaltali 6 evrur.
Sjá á korti
Barcelona – Reykjavik, C/Doctor dou 12 í El Raval og C/ Asturies 20 í Gracia – Eiins og nafnið gefur til kynna hefur þetta gæðabakarí í El Raval eitthvað með Ísland að gera. Eigendurnir eru íslenskir og hafa fengið góðar viðtökur í Barcelona. Það væri óskandi að þeir opnuðu útibú í Reykjavík þó varla sé kostur á eins flottu húsnæði fyrir starfssemina eins og það sem hýsir þau á Spáni. Það er tilvalið að kíkja við og kaupa brauð eða sætabrauð til að narta í úti í sólinni. Ekki spillir fyrir að brauðin eru mettandi og hollustan í fyrirrúmi.
HeimasíðaSjá á korti
Mistral, Ronda Sant Antoni 96 í El Raval – Hér hefur verið bakað brauð síðan 1879 og heimamenn eru svo sólgnir í það að afgreiðslufólkið hefur varla undan. Það er því vissara að hafa pöntunina klára þegar röðin kemur að manni til að slá ekki önnum kafið starfsfólkið út af laginu. Litlu súkkulaði croissantarnir sem seldir eru eftir vigt eru sennilega eitthvað það syndsamlegast sætabrauð sem hægt er að komast með puttana í.
Sjá á korti
Veitingastaðir
Kaiku, Placa del Mar 1 í Barceloneta – Ef maður pantar borð tímanlega eða ef heppnin er með manni fær maður sæti úti á verönd þar sem hægt er að virða fyrir sér sjávarsíðu Barcelona á meðan snætt er. Hér er boðið upp á ferskt hráefni af markaðnum sem eldað er samkvæmt hefðum Miðjarðarhafseldhússins. Hádegismatseðillinn á 10 evrur.
Sjá á korti
Les Quinze Nits, Placa Reial 6 í El Born – Katalónsk matargerð, hröð þjónusta og frekar lágt verð. Hádegismatseðillinn kostar undir 10 evrum og meðalverð fyrir aðalrétt á kvöldin er um 20 evrur.
Sjá á korti
El Ponsa, Enric Granados 89 í Gracia – Heimilisleg matargerð og afslöppuð stemming á þessum hverfisveitingastað í L´Eixample. Þetta er því staðurinn fyrir þá sem vilja fá góðan mat og frambærileg vín án þess að þurfa að klæða sig upp eða borga of mikið. Meðalverð fyrir kvöldverð eru 18 evrur en hádegismatseðillinn kostar 12 evrur.
Sjá á korti
Can Punyetes – Lítil katalónsk veitingahúsakeðja þar sem grillmatur er í hávegum hafður. Í Barcelona er að finna þrjá staði og njótta þeir mikilla vinsælda enda boðið upp á góðan mat á góðu verði.
Sjá alla þrjá staðina á korti Ciutat de Balaguer 50, Maria Cubi 189 og Francesc Giner 8-10