Berlín

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Hylli Berlínar meðal íslenskra túrista hefur farið ört vaxandi síðustu ár. Dramatísk saga, menningin sem þar blómstrar og stórborgarstemmingin gera hana að spennandi áfangastað allt árið um kring. Það er ekki að ástæðulausu að Berlín er þriðja vinsælasta ferðamannaborg Evrópu því þar finna allir eitthvað sem gerir dvölina eftirminnilega.

Verðlagið í Berlín hefur líka fengið verðskuldaða athygli og þar fá kaupglaðir ferðalangar og sælkerar meira fyrir krónurnar sínar en gengur og gerist í vestrænni stórborg.

WOW air flýgur til Berlínar allt árið um kring en nokkur önnur félög yfir sumarið.

Sjá og gera

Sjónvarpsturninn

Eitt af kennileitum borgarinnar er hinn 368 metra hái sjónvarpsturn við Alexanderplatz. Ráðamenn í austurhluta borgarinnar létu reisa á sínum tíma til að koma skilaboðum til þegnanna í gegnum imbakassa. Útsýnispallur turnsins er í 207,5 metra hæð og snýst hann í heilan hring á hálftíma. Eins og gefur að skilja er útsýnið yfir borgina frábært úr kúlunni. Turninn er vinsæll meðal ferðalanga og því geta myndast langar biðraðir á jörðu niðri. Það er hægt að panta miða fyrirfram á heimasíðunni og stytta þannig biðina.
www.tv-turm.de. Opið frá níu að morgni til miðnættis nema frá 10 nóv til feb. Fullorðnir 12 evrur, börn 7,5 en yngri en 3 ára fá frítt.

Þinghúsið – Reichstag

Í áratugi stóð þetta gamla þinghús Þjóðverja autt á mörkum austurs og vesturs. Það var ekki fyrr en við sameiningu Þýskalands að húsið var tekið aftur í notkun eftir rúmlega sextíu ára hlé og hýsir það nú þing landsins líkt og það gerði við upphaf síðustu aldar. Á toppi hússins er að finna risastóra glerhvelfingu og þangað geta ferðamenn farið og virt fyrir sér borgina og þessa listasmíð.
– Platz der Republik 1 (sjá á korti). Aðgangur ókeypis en gestir þurfa að gera boð á undan sér á heimasíðu þingsins (sjá hér).

Gyðingasafnið

Berlín var stærsti gyðingabær í heimi þar til að nasistar komust til valda. Safnið er því vel í sveitt sett til að fræða ferðamenn um hina 2000 ára gömlu sögu gyðingdómsins. Það er þó ekki aðeins horft um öxl á safninu því þar velta menn líka fyrir sér hvað framtíðin ber í skauti sér. Börn finna sér ýmislegt til dundurs á þessu fína safni sem meðal annars er til húsa í óvenjulegri byggingu artkitektsins Daniel Libeskind.
jmberlin.de, Lindenstrasse 9-14, Kreuzberg. Opið mán 10-22, þri til sun 10-20. Fullorðnir 5 evrur inn, börn yngri en 6 frá frítt inn. Lægra verð fyrir nema.

Hackesche Höfe

Í þessum 9200 fermetra bakgarði kennir ýmissa grasa, eða öllu heldur verslana, gallería og matsölustaða. Það er gaman að rölta þarna um og skoða úrvalið í sérverslununum. Skammt hjá eru verslunargöturnar Neue og Alte Schönhauser Strasse og Oranienburger Strasse. Hackesche Höfe passar því vel í verslunartúr þeirra sem vilja heldur sérverslanir og minni búðir í stað vöruhúsa.
www.hackesche-hoefe.com, Rosenthaler Strasse 40-41. S-Bahn: Hackescher Markt, U-Bahn: Weinmeisterstrasse

Safnaeyjan

Á miðri Spree liggur eyja með fimm söfnum sem öll eru hluti af heimsminjaskrá Unesco. Byggingarnar voru reistar á nítjándu öld og hýsa listmuni langt aftur í aldir og líka verk eftir heimsþekkta listamenn sem eru nær okkur í tíma. Það er því hægðarleikur að eyða góðum dagsparti í þessum virðulegu byggingum.
www.smb.museum, Museumsinsel á korti. Aðgangseyrir og opnunartími er mismunandi eftir söfnum (sjá heimasíðu fyrir nánari uppl.)

Brandenburg hliðið

Þetta 26 metra háa borgarhlið stóð í austurhluta borgarinnar á kaldastríðsárunum en ekki svo langt frá múrnum. Hliðið var því í brennidepli þegar íbúarnir tóku málin í sínar hendur árið 1989 og prýddi það ófáar fréttamyndir frá þessum einstaka atburði. Hliðið stendur við annan enda Unter den Linden breiðgötunnar sem er viðkomustaður margra ferðamanna. Þinghúsið (Reichstag) er í seilingarfjarlægð frá Brandenburg hliðinu.
– Pariser Platz (sjá á korti). U-bahn: Brandenburger Tor/Unter den Linden

Bauhaus safnið

Áhrifa Bauhaus skólans á byggingarlist og hönnun gætir víða og það er því fróðlegt að heimsækja safnið og sjá með eigin augum allt það sem telst til Bauhaus. Og það er ekki lítið.
www.bauhaus.de, Klingelhöferstraße 14. Opið frá kl. 10 til 17 alla daga en lokað á þriðjudögum. 7 evrur inn.

DDR safnið

Hér er reynt að koma til skila stemningunni eins og hún var í A-Þýskalandi á kaldastríðsárunum. Gestir safnsins geta m.a. skoðað hefðbundið heimili í austurhlutanum, kynnt sér starfsaðferðir leyniþjónustunnar og fræðst um hinn fræga Trabant. Þetta er einkarekið safn og fær engin framlög frá ríkinu.
www.ddr-museum.de. Opið alla daga frá kl. 8 til 20 (til 22 á laugardögum). 6 evrur inn.

Matur og drykkur

Kaffihús

The Barn (Mitte)

Lítið kaffihús með örlitlum amerískum brag. Starfsfólkið talar ensku sín á milli og umræðan snýst um hinar ýmsu kaffi- og teblöndur. Kaffið er virikilega gott og óhætt að mæla með gulrótaköku hússins (með hökkuðum möndlum ofan á). Cappuchino 2,4 evrur og sætabrauð frá tæpum tveimur evrum.
www.thebarn.de, Auguststrasse 58 í Mitte. Opið frá kl. 8 til 18 virka daga en frá 10 um helgar. Aðeins reiðufé.

Bar Gagarin (Prenzlauer Berg)

Hér stendur enginn upp frá morgunverðarborðinu svangur, skammtanir eru það stórir. Tveir geta deilt Gagarin (14,9 evrur) morgunmatnum og fá þá stóran disk af rússneskum pönnukökum, reyktum laxi, ávöxtum, eggjum, skinkum, salami og ostum. Brauðkarfa fylgir líka. Safi og kaffi kosta á bilinu 2 til 4 evrur. Á sunnudögum er morgunverðarhlaðborð og kostar það 10 evrur á mann.
Það er opið á Bar Gagarin langt fram á kvöld og matur er serveraður allan daginn.
www.bar-gagarin, Knaackstrasse 22 í Prenzlauer Berg.

Zeit Für Brot (Mitte)

Við upphafsreit þessarar vinsælu verslunargötu í Mitte er að finna einhverja syndsamlegustu snúða sem hægt er að hugsa sér. Valhnetusnúðar, snúðar með hvítu eða dökku súkkulaði, sírópi og svo fram eftir götunum. Stykkið á 2,4 evrur. Þetta er nýmóðins kaffihús sem er vel sótt og þrátt fyrir gott úrval af alls kyns bakkelsi eru það snúðarnir sem freista flestra viðskiptavinanna.
www.zeitfuerbrot.com, Alte Schönhauser Strasse 4 í Mitte. Opið frá 7:30 til kl. 20, virka daga. Frá kl. 8-20 á laugardögum og 8-18 á sunnudögum.

Soluna Brot und Öl (Kreuzberg)

Eitt þekktasta bakarí borgarinnar og jafnfram vinsælt kaffihús rétt við hina huggulegu verslunar- og kaffihúsagötu Bergmannstrasse.
– Gneisenaustrasse 58. Opið frá hálf átta til hálf sjö virka daga en til fjögur á laugardögum. Lokað á sunnudögum.

St Oberholz (Mitte)

Viðurkennum það bara að þó við séum á ferðalagi í útlöndum þá er gott að komast í netsamband til að kíkja á póstinn sinn og jafnvel Facebook. Á þessu stóra kaffihúsi í Mitte situr stærsti hluti gestanna og kíkir í tölvur, símar og ipod. Hljómar ekki vel en þetta er flott kaffihús með ljómandi veitingar og fría nettengingu. Rozenthaler Platz U-bahn stöðin er við hliðina. Kaffið á 2 til 3 evrur.
www.sanktoberholz.de, Rozenthaler Strasse 72a í Mitte. Opið frá kl. 8 til miðnættis virka dag en frá 10 um helgar.

Café Einstein (Mitte)

Það er óhætt að fullyrða að flestir ferðamenn í Berlín eigi einhvern tíma leið um Brandenburger hliðið og nágrenni. Á hinni fallegu breiðgötu, Unter den Linden, eru prísarnir í hærri kantinum og alþjóðlegar kaffihúsakeðjur áberandi. Café Einstein hefur hins vegar verið hér í áratugi og verður væntanlega um ókomna tíð.
www.einsteinudl.com, Unter den Linden 42. Opið alla daga frá kl. 7 til 22.

Veitingahús

Jolesch (Kreuzberg)

Sígildur matsölustaður í hornhúsi í Kreuzberg. Það er hátt til lofts í frekar matsalnum og hér borðar fólk risastóran austurrískan schnitzel sem er framreiddur samkvæmt öllum þeim hefðum sem gilda um þennan víðfræga rétt. Herlegheitin kosta rétt um 20 evrur. Aðalréttir kvöldsins eru á bilinu 13 til 22 evrur. Fremsti hlutinn staðarins er kaffihús sem er opið allan daginn og á góðum dögum er hægt að sitja úti og njóta sólarinnar.
www.jolesch.de, Muskauer Strasse 1. Opið alla daga til miðnættis.

Clärchens Ballhaus (Mitte)

Það er fátt hefðbundið við þennan veitingastað sem er til húsa í aldargömlu „ballhúsi“. Hér eru haldin dansnámskeið innan um matargestina sem er auðvitað frjálst að slást í hópinn og fá leiðsögn í diskó eða cha, cha, cha. Þegar á líður og flestir hafa borðað þá færist enn meira fjör í leikinn. Clärchens Ballhaus er veitingastaður fyrir þá sem vilja sleppa formlegheitunum eitt kvöld en samt vera vissir um að fá risastóran skammt af Créme Brulée í eftirrétt. Aðalréttir á 5,9 til 17 evrur (sjá matseðil).
www.ballhaus.de, Auguststrasse 24. Staðurinn opnar klukkan tíu á morgnana og er opinn þangað til að stuðið er búið.

Yumcha heroes (Prenzlauer Berg)

Það er kannski full mikið af því góða að nærast eingöngu á pylsum og schnitzel í Berlín. Yumcha Heros framreiðir virkilega góða kínverska dömplinga (gufusoðna og steikta) sem eru frískandi fæða. Tala nú ekki um súpur staðarins þegar kalt er úti. Það er vissara að panta tvo rétti ef ferðinni er ekki heitið á annan veitingastað innan tveggja tíma. Matur fyrir einn er því á rúmar tíu evrur. Drykkir á þrjár. Í hádeginu kostar súpa og dumplingar 7,5 evrur. Það er leikinn jazz á þessum nýtískulega kínverska stað.
www.yumchaheroes.de, Weinbergsweg 8. Opið frá kl. 12 til miðnættis alla daga.

Marash (Kreuzberg)

Á litlum kafla á Adalbertstrasse, frá Kottbusser Tor og upp að Oraniensstrasse, eru nokkrir arabískir staðir. Á Marash hafa þrír menn varla undan við að útbúa falafel og Schawarma ofan í gesti staðarins. Samlokan er á 3 evrur. Hægt er að sitja á barstólum á þessum skyndibitastað eða úti ef vel viðrar. Þetta er ekki staður til að hanga á, heldur borða og drífa sig svo af stað. Hasir, sem er hinum megin við götuna sérhæfir sig í doner og hægt að mæla með honum líka.
www.maroush-berlin.de, Adalbertstrasse 93. Opið frá kl.11 til 2 alla daga.

Altes Europe (Mitte)

Sjarmerandi knæpa með einfaldan matseðil sem samanstendur af klassískum réttum úr evrópska eldhúsinu. Réttirnir á 7 til 10 evrur og öl á 2,5 evrur. Hér sitja vel klæddir bóhemar sem þurfa aðeins að bregða sér í reykfyllt bakherbergi til að fá sér rettu.
www.alteseuropa.com, Gipsstrasse 11.

Gagnlegt

Til og frá flugvellinum

Það tekur um 20 mínútur að taka lest frá Schönefeld flugvelli og inn í bæ. Fargjaldið er um þrjár evrur og því lítil ástæða til að borga leigubílstjóra 40 evrur fyrir skutlið. Lestin fer nokkrum sinnum á klukkutíma. Schönefeld flugvelli verður lokað hausið 2013 þegar nýr völlur, kenndur við Brandenburg, opnar.

Samgöngur innanbæjar

Neðanjarðarlestarkerfið (U-bahn) er mjög gott í Berlín. Það er því hægðarleikur að komast á milli borgarhluta. Stakt fargjald kostar 2,4 evrur og gildir í tvo tíma í lestir og strætó. Dagmiði kostar 6,5 evrur og það borgar sig því að kaupa svoleiðis ef ferðirnar verða fleiri en þrjár yfir daginn. Sjá nánari upplýsingar á ensku á heimasíðu BVG. Á síðunni er að finna leitarvél sem finnur auðveldustu leiðina frá A til B (sjá Journey planner). Sporvagnar og strætóar keyra einnig vítt og breitt um borgina.

Þjórfé

Þó þjónustugjald er oftast innifalið í reikningi veitingastaða. Þrátt fyrir það er eðlilegt að gefa þjóninum um 10 prósent þóknun, borga t.d. 30 evrur ef reikningurinn er upp á 27. Það er eðlilegra að rétta þjóninum afganginn í stað þess að láta hann liggja á borðinu. Nokkrar evrur handa herbergisþernunni eru líka vel þegnar, t.d. 2 evrur á dag. Skilja þær eftir á miða sem á stendur „Danke“ eða „Thank you“ svo hún viti að peningurinn er ætlaður henni. Fargjald leigubíla má námunda upp á við og gefa mismuninn.

Reiðufé

Það borgar sig alltaf að hafa mynt í vösunum því það er ekki víst að hægt sé að borga allt með kreditkorti. Þó hraðbankar séu mjög víða þá er það nú oft þannig að þeir virðast sjaldan vera við hendina akkúrat þá stund sem við þurfum að ná í pening. Það kostar líka sitt að taka út (sjá nánar hér).

Hótel

Gerðu verðsamanburð á gistingu í Berlín og bókaðu besta kostinn hér:

Bílaleiga