Boðar hærri fargjöld

Það er of ódýrt að fljúga til og frá Skandinavíu að mati framkvæmdastjóra stærsta flugfélags Norðurlanda. Vélar félagsins hafa ekki verið eins þéttskipaðar í langan tíma

„Allir vilja fá ódýra flugmiða en kúnnarnir verða að átta sig á að flugfélögin þurfa að þéna peninga af þau eiga að hafa efni á nýjum flugvélum, fljúga til fleiri áfangastaða og bjóða upp á betri þjónustu“, segir Eivind Roald, einn af framkvæmdastjórum SAS í viðtali við Dagens Næringsliv. Að hans mati er offramboð á flugi til og frá Skandinavíu og fargjöldin of lág. SAS og Norwegian, tvö stærstu flugfélög Norðurlanda, hafa lengi háð mjög harða samkeppni og kenna forsvarsmenn félaganna tveggja hvorum öðrum um að hafa fjölgað ferðum of mikið og vera með of lága verðskrá.

Sætanýtingin sjaldan betri

Í ágúst seldust um 83 prósent sætanna hjá SAS og Norwegian og þetta er nokkur hærra hlutfallið en félögin eru vön að ná. Forsvarsmenn SAS hafa sagt að lægri fargjöld séu ein helsta ástæðan fyrir því að sætanýtingin hafi aukist. Það er hins vegar ekki kappsmál að halda henni hárri heldur að auka tekjurnar. Líkt og Túristi greindi frá fyrr í vikunni á þá voru þoturnar í Keflavík þéttsetnar í ágúst og nýting Icelandair og WOW air var mun hærri en hjá skandinavísku félögunum tveimur. Hjá WOW air var hlutfallið til að mynda 95 prósent.

Lækka verðin frá Keflavík

Norwegian og SAS fljúga bjóða bæði upp á áætlunarflug hingað frá Osló allt árið um kring og samkvæmt mánaðarlegum verðkönnunum Túrista þá eru fargjöldin til höfuðborgar Noregs oft ódýrari en til London og Kaupmannahafnar. Það er hins vegar mjög mismunandi hvort það er Icelandair, Norwegian eða SAS sem býður lægst. Í nýjustu könnun Túrista var farið ódýrast hjá Norwegian og hafði það staðið í stað milli ára. Ódýrasti farmiðinn hjá SAS hafði lækkað nokkuð milli ára.