Boðið í betri sæti hjá Icelandair

Þeir sem eru á leið út með Icelandair geta nú reynt að komast fremst í vélina fyrir minna en það kostar að bóka miða á Saga Class.

Nýlega hófu forsvarsmenn Icelandair að leita tilboða meðal farþega á almennu farrými í laus sæti á Economy Comfort og Saga Class. Tíu dögum fyrir brottför hefst uppboðið og geta þá áhugasamir lagt inn boð í sætin fremst í vélinni. Í uppboðsferlinu sjá þátttakendur hversu líklegt er að tilboði þeirra verði tekið en niðurstaðan liggur fyrir tveimur sólarhringum fyrir brottför.

Þrefalt dýrari miðar

Ólíklega nægir að borga aukalega nokkur þúsund krónur fyrir betri sætin því samkvæmt lauslegri athugun Túrista þá greiða farþegar á Economy Comfort helmingi til tvöfalt meira fyrir sína miða en þeir sem eru á almennu farrými. Sætin á Saga Class geta hins vegar kostað þrefalt meira.

Á dýrari farrýmunum fá farþegar hins vegar fríar veitingar og aðgang að „betri stofum“ á flugvöllum. Þá þjónustu fá einnig þeir sem kaupa sætin á uppboði.

Viðtökur í samræmi við væntingar

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að félagið sé að prófa sig áfram með þessa þjónustu og hún verði í boði í fleiri tilvikum eftir því sem á líður. „Verðunum er stýrt af þeim sem bjóða í, og þannig gefum við ekki út neitt lágmarksverð. Þetta er jafnframt háð framboði sæta og er eingöngu í boði ef við náum ekki að selja þau með venjulegum leiðum sem getur verið mjög mismunandi eftir flugleiðum og tíma dags sem flogið er. Viðtökurnar eru í samræmi við væntingar,” segir Guðjón aðspurður um hvort margir farþegar taki þátt í uppboðunum.